Ásatrú er endurvakin útgáfa af trúarbrögðum norrænna manna til forna. Hún er fjölgyðistrú þar sem æsir og ásynjur eru blótuð. Raunar er villandi að kalla trúna Ásatrú, því ásatrúarmenn trúa ekki bara á æsi, heldur líka landvætti, vani, dísir, álfa, jötna, dverga og aðrar máttugar verur og forfeður. Trúin er stundum kölluð Forn siður eða Heiðinn siður. Margir ásatrúarmenn líta frekar á ásatrú sem sið eða lífsstíl heldur en bein trúarbrögð.

Ásatrú í hnotskurn

  • Nafn: Ásatrú, Heiðinn siður. Fylgjendur nefnast heiðingjar.
  • Guð: Fjölgyðistrú. Dæmi um helstu Æsi og Ásynjur eru Óðinn, Þór, Baldur, Loki, Höður, Bragi, Frigg, Iðunn, Freyja og Sif.
  • Algengust: Ísland og N-Evrópa
  • Bænarhús: Hof, Náttúran öll
  • Heilagasta hátíð: Höfuðblótin
  • Helgidagur: Enginn
  • Helgirit: Snorra-Edda og Eddukvæðin
  • Fylgjendur í heiminum: um 20.000
  • Fylgjendur á íslandi: um 1.400
  • Fjöldi íslenskra félaga: 2

Æsir eru fjölskylda goða þar sem hvert goð hefur sitt hlutverk og persónueinkenni. Óðinn er æðstur goða. Hann er eineygður faðir annarra goða, og er m.a. goð hernaðar, dauða, visku, spádóma og skáldskapar, enda er skáldskapur mjög mikilvægur í Ásatrú. Kona Óðins heitir Frigg. Meðal annara goða má nefna Þór þrumuguð, Frey og Freyju frjósemisgoð, Baldur hinn fagra, Loka hinn illa og slóttuga, Höð hinn blinda, Braga skáldskapargoð og Iðunni æskugyðju. Æsirnir og ásynjurnar eru ekki fullkomin, heldur hafa ýmsa mannlega eiginleika og gera oft mistök, þó þau séu máttug og voldug. Í Eddunum má lesa mjög skemmtilegar sögur af lífi goðanna.

Ásatrú byggist á umburðarlyndi, heiðarleika, drengskap og virðingu fyrir fornum menningararfi og náttúrunni. Einn kjarnanna í trú Ásatrúarmanna er hringrás sköpunar og eyðingar, að heimurinn hafi aldrei orðið til úr engu og muni aldrei verða að engu, heldur haldi hann áfram að verða til og eyðast. Saga heimsins er endalaus orrusta og hver maður er ábyrgur fyrir sjálfum sér og gerðum sínum.

Hvar er Ásatrú algengust?

Ásatrú er algengust í Skandinavíu og Norður-Evrópu, kort af dreifingu trúarbragða í heiminum er hér að neðan, það vantar reyndar ásatrú þar inn.

Mynd fengin af: https://uni.hi.is/brb42

 

Hvert er helgirit Ásatrúarmanna?

Ásatrúarmenn hafa aðalega hliðsjón af hinum fornu Eddum í trúarlegum efnum.

  • Snorra-Edda er bók í fjórum hlutum: Prologus, Gylfaginning, Skáldskaparmál og Háttatal. Hún var rituð af Snorra Sturlusyni á 13. öld. Prologus og Gylfaginning eru mikilvægustu hlutarnir og fjalla um líf goðanna. Snorra-Edda er mikilvægasta heimild sem við höfum í dag um norræna goðafræði og fornan átrúnað.
  • Eddukvæðin eru samansafn af tugum ljóðabálka sem fjalla um goðin og siði heiðinna manna. Þeirra þekktust eru Hávamál, sem er siða- og heilræðabálkur, og Völuspá, sem fjallar um upphaf og endi alheimsins

Hverjar eru helstu trúarhátíðir Ásatrúarmanna?

Helgiathafnir ásatrúarmanna kallast blót. Upphaflega hefur orðið blót líklega haft merkinguna að efla goðmögnin. Lítið er til af rituðum heimildum um helgisiði og blóthald í heiðnum sið til forna. Ásatrúarfélagið heldur fjögur höfuðblót yfir árið. Þau eru: Á fyrsta vetrardegi (upphaf nýs árs að fornu), á jólum (við vetrarsólstöður), sumardaginn fyrsta og á sumarsólstöðum. Blót eru oft miklar át- og drykkjuveislur og á þeim er lesið upp úr fornkvæðunum. Helgiathafnir fara oft fram undir berum himni úti í náttúrunni.

Ásatrúarfélög á Íslandi

Til eru tvö félög um Ásatrú á Íslandi:

Mynd fengin af Wikipedia – Breytt af Áttavitanum

 

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar