Trúleysi er það að vera ekki trúaður. Hér er um að ræða mjög margar og mismunandi lífsskoðanir, sem allar fela það í sér að aðhyllast engin trúarbrögð eða trúa ekki á guði. Trúleysi er ekki trú eða trúarbrögð. Trúleysi er ekki heldur djöfladýrkun eða guðshatur. Trúleysi er ekki heldur siðfræði. Trúleysi er ekki heldur stjórnmálastefna. Trúleysi er einfaldlega það að trúa ekki.

Í trúleysi felst enginn sameiginlegur siðaboðskapur, sögur, trúarathafnir, hefðir, hátíðir eða reglur, ólíkt trúarbrögðum. Það þýðir þó ekki að trúlausir séu siðlausir eða menningarsnauðir, heldur byggja þeir gott siðferði og menningu á sínum eigin forsendum og forsendum samfélagsins í kringum sig.

Trúleysi í hnotskurn

 • Nafn: ekkert
 • Guð: enginn
 • Algengast: á norðurhveli jarðar
 • Bænarhús: engin
 • Heilagasta hátíð: enginn
 • Helgidagur: enginn
 • Helgirit: ekkert
 • Fylgjendur í heiminum: um 1,1 milljarður
 • Fylgjendur á íslandi: 35.000 til 192.000 eftir skilgreiningu
 • Fjöldi íslenskra félaga: engin

Hvar er trúleysi algengast?

Það er erfitt að skilgreina og telja trúlausa nákvæmlega, en samkvæmt flestum talningum eru þeir samtals um 1 milljarður í heiminum og dreifast nokkuð jafnt um norðurhvel jarðar og Ástralíu. Í gömlu kommúnistaríkjunum voru trúarbrögð gjarnan bönnuð og því er mikið um trúleysi í Kína, Rússlandi, A-Evrópu og Kúbu. Í Svíþjóð,Tékklandi, Danmörku, Japan og Víetnam segjast fleiri en 70% íbúa ekki trúa á nokkurs konar guð, anda eða almætti. 

Samkvæmt könnun frá 2004 sögðust 40% Íslendinga trúa á guð, 26% sögðust ekki trúa á guð, 20% sögðust ekki geta vitað hvort guð væri til og 9% voru frumgyðistrúar (sjá neðar). Samkvæmt annarri nýlegri könnun sögðust 11% vera guðleysingjar. Það eru því á bilinu 11-60% Íslendinga trúlausir, eftir því hversu stranga skilgreiningu við notum.

Hvert er helgirit trúleysingja?

Þar sem trúleysi er ekki skipulögð trúarbrögð þá eiga trúlausir auðvitað engin helgirit. Þó eru til margar bækur um málefnið sem sumir trúlausir halda mikið upp á, m.a. Ranghugmyndin um guð eftir Richard Dawkins, God Is Not Great eftir Cristopher Hitchens og The End of Faith eftir Sam Harris.

Hverjar eru helstu hátíðir trúleysingja?

Trúlausir eiga engar trúarhátíðir, en taka að sjálfsögðu þátt í öllum hefðbundnum hátíðum þar sem þeir búa. Trúlausir Íslendingar halda t.d. jafn mikið upp á jólin eins og kristnir Íslendingar.

Hverjar eru helstu tegundir trúleysis?

Til eru nokkur afbrigði af trúleysi, eftir því hvernig fólk skilgreinir guð og trú. Nokkrar helstu stefnurnar eru frumgyði, óvissuhyggja, trúbragðaleysi, guðsinnuleysi, guðleysi, manngildisstefna og andtrú.

 • Hvað er frumgyði (Deism)? Það að trúa því að guð hafi skapað heiminn og búið til náttúrulögmálin, en síðan þá hafi hann ekki skipt sér af heiminum. Guð frumgyðismanna boðar enga siði, skiptir sér ekki af örlögum manna, tekur ekki við bænum, framkvæmir engin kraftaverk o.s.fr. Frumgyðismenn eru því “trúaðir” á guð sem skapaði heiminn en trúlausir á guð í daglegu lífi.
 • Hvað er óvissuhyggja (Agnosticism)? Það að geta ekki verið viss hvort guð sé til eða ekki. Óvissumenn telja það fráleitt að fullyrða hvort guð sé til eða ekki, og draga allar slíkar fullyrðingar í efa hvaðan sem þær koma. Stundum er óvissumönnum skipt í tvo hópa eftir því hvort þeir álíti spurninguna um tilvist guðs svaranlega en ósvaraða, eða hreinlega ósvaranlega.
 • Hvað er trúbragðaleysi (Irreligion)? Það að aðhyllast ekki skipulögð trúarbrögð á borð við Kristni og Islam. Sumir geta verið andlega sinnaðir og trúað á einhvers konar mátt eða anda, en kjósa að aðhyllast engin skipulögð trúarbrögð. Aðrir trúa ekki á neinn mátt eða guð.
 • Hvað er guðsinnuleysi (Apatheism)? Það að vera alveg sama hvort guð sé til eða ekki. Að líta svo á að guð skipti ekki máli, hvort sem hann er til eða ekki.
 • Hvað er guðleysi (Atheism)? Það að trúa því ekki að guð sé til. Stundum er gerður greinarmunur á sterku og veiku guðleysi. Veikt guðleysi felur í sér að trúa ekki á tilvist guða. Sterkt guðleysi felur í sér algjöra sannfæringu um það að guðir séu ekki til. Athugið samt að sumir eru trúaðir þó þeir séu guðlausir, því sum trúarbrögð fjalla ekki um neina guði. Búddismi er dæmi um guðlaus trúarbrögð.
 • Hvað er manngildisstefna (Humanism)? Það er lífsskoðun sem snýst um að setja manninn og mannlegt samfélag í fyrsta sæti, frekar en trú á guð og almætti. Húmanistar boða veraldleg gildi og gott siðferði. Í stað yfirnáttúrulegra afla líta þeir á mannlega reisn sem heilaga.
 • Hvað er andtrú (Antitheism)? Það að líta beinlínis á trúarbrögð sem hættuleg, heimskuleg eða slæm, og vinna gegn þeim. Andtrúarfólk hefur stundum stofnað háðsádeilu-trúarbrögð á borð við Kirkju hins fljúgandi spagettískrímslis.

Félög trúlausra á Íslandi:

Trúlausir Íslendingar geta verið skráðir í ýmis trúfélög, “utan trúfélaga” í Þjóðskrá eða í lífsskoðunarfélagið Siðmennt sem er málsvari manngildisstefnu (húmanisma) og frjálsrar hugsunar, óháð trúarsetningum, og stendur fyrir veraldlegum athöfnum.

 

 • Var efnið hjálplegt?
 •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar