Hvað eru ungmennaráð sveitarfélaganna?

Ungmennaráð sveitarfélaganna eru formleg ráð ungs fólks sem tjá sig sem fulltrúar ungmenna í samfélaginu. Þau geta verið af öllum stærðum og gerðum. Helsta starf ungmennaráða sveitarfélaganna er að koma skoðunum sínum sem varða sveitarfélagið á framfæri, auk þess að vera vettvangur þar sem ungmenni geta haft áhrif á þau málefni sem þau telja mikilvæg. Ungmennin sjálf velja sín málefni sem þau vilja kljást við hverju sinni.

Markmið ungmennaráða

Ungmennaráð hafa ólíkar áherslur en þeirra helsta markmið er að vera vettvangur sem fyrir ungmenni til að koma skoðunum sínum og tillögum á framfæri til viðeigandi aðila. Ásamt því fá þau sem taka þátt í ungmennaráðum þjálfun og stuðning í að koma skoðunum sínum og jafningja sinna á framfæri til þeirra sem svo taka ákvarðanirnar í samfélaginu.

Hvað gera ungmennaráð?

Ungmennaráð funda reglulega og ræða þau málefni sem liggja þeim á hjarta hverju sinni. Grundvöllur starfsins er að ungt fólk hafi tækifæri til að vera virkir þátttakendur í samfélagi sínu og fái tækifæri til að koma að ákvörðunum sem snerta líf þeirra.

Þá standa þau fyrir þingum, umræðufundum og sum taka þátt í alþjóðlegum verkefnum. Algengt er að ungmennaráð hitti að lágmarki sveitar- eða borgarstjórnir síns sveitarfélags einu sinni á ári til að koma hugmyndum sínum á framfæri. Sumar hugmyndirnar fara í framkvæmd og verða að veruleika.

Hér eru nokkur dæmi um það sem ungmennaráðin hér á landi hafa gert:

 • Látið bæta við ljósastaurum.
 • Stofnað æskulýðssjóð þar sem ungmenni geta sótt um styrk.
 • Opnað og starfrækt ungmennahús.
 • Bætt aðstöðu í félagsmiðstöðvum og skólum.
 • Fengið frisbígolfvöll.
 • Komið af stað fleiri viðburðum fyrir ungmenni.
 • Bætt samgöngur, til dæmis tímaáætlanir Strætó.
 • Spornað við plastpokanotkun.
 • Séð til þess að sveitarfélagið taki á móti fleiri flóttamönnum.
 • Heimsótt önnur ungmennaráð innlendis og erlendis.
 • Tekið þátt í verkefnum og ráðstefnum innlendis og erlendis.

Hver er viðmiðunaraldur ungmennaráða?

Viðmiðunaraldur ungmennaráða er afar ólíkur en yfirleitt eru meðlimir á efri árum í grunnskóla eða á framhaldsskólaaldri. Sveitarfélögin hafa þó frjálsar hendur með nákvæmar reglur, hlutverk og val í ungmennaráð.

Hvernig er hægt að taka þátt?

Ungmennaráð hafa farið ýmsar leiðir til þess að velja í sín ráð. Ef að ráðið er nýtt
er það oft starfsfólk sveitarfélaganna sem sér um að finna ungmenni til að skipa ráðið. Æskilegast þykir þó að valið í ráðið sé lýðræðislegt og gætt sé að fjölbreytileika. Stundum eru meðlimir ungmennaráðsins kosnir á ungmennaþingi. Þá geta aðrir fulltrúar þess verið fengnir úr skipulögðum hópum í æskulýðsstarfi.

ef þú vilt taka þátt í starfi ungmennaráðs, settu þig í samband við þitt sveitarfélag.

Heimildir og frekari lestur.

 • Var efnið hjálplegt?
 •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar