Hvernig stofnar maður fyrirtæki?

Í raun er mjög lítið mál að stofna fyrirtæki: fylla þarf út nokkur eyðublöð og skila þeim inn á viðkomandi staði. Og reiða fram smá pening. Að reka fyrirtæki – og það með hagnaði – er hinsvegar flóknara mál sem krefst mikils aga, skipulags og tímafórna.

  •     Á Áttavitanum má finna greinina “Hvernig stofnar maður fyrirtæki?” þar sem hægt er að lesa sér til um reglur og skyldur er við koma stofnun einkahlutafélags.

Spurningar sem vert er að spyrja sig að…

Áður en farið er út í fyrirtækjarekstur þarf að huga að mörgum hlutum. Er viðskiptahugmyndin nógu góð? Hefur fólk áræðni og þolinmæði til að ná árangri? Er það tilbúið til að taka áhættu? Er það tilbúið til að leggja persónulega fjármuni að veði? Er það tilbúið að fórna tíma sínum, vinna langan vinnudag á virkum dögum sem og um helgar? Hér að neðan má nálgast nokkur góð ráð og spurningar sem vert er að spyrja sig að áður en farið er út í fyrirtækjarekstur.

Fyrstu skrefin…

Að ákveða að fara út í eigin rekstur er stór ákvörðun sem ekki verður tekin í snarhasti. Margir komast aldrei af þessu stigi og yfir á framkvæmdastigið og fyrir því geta legið margar ástæður. Algeng ástæða fyrir því að fólk stígur ekki skrefið til fulls eru efasemdir um eigið ágæti og vantrú á að það geti þetta.

Er hugmyndin nógu góð?

Fyrst þarf að ganga úr skugga um að hugmyndin hafi möguleika til að ná árangri. Gott er að skoða markaðsrannsóknir vandlega og finna út hverjir eru mögulegir samkeppnisaðilar. Hægt er að leita á netinu og á gulu síðunum.

    Það getur verið gríðarlega gagnlegt að ræða við aðra frumkvöðla sem þegar hafa staðið í þessum sporum og komast að því hvað þeir gerðu til náðu árangri.

Næstu skref…

  • Þegar hugmyndin er skoðuð er skynsamlegt að setjast niður og gera smá SVÓT greiningu; lista upp styrkleika hugmyndarinnar og veikleika, hvaða ógnanir gætu helst staðið í veginum og hvaða tækifæri þetta gæti haft í för með sér. Með SVÓT greiningu má oft fá skýrari mynd af því sem maður hefur í huga.
  • Það kostar pening að stofna fyrirtæki. Á vef Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands má nálgast upplýsingar um mögulegan kostnað.
  • Næst skalt skal gera viðskiptaáætlun og athuga hvort hægt sé að vernda viðskiptahugmyndina. Hjá Einkaleyfastofu  má nálgast upplýsingar um höfunda- og hugverkarétt, einkaleyfi og ýmislegt fleira.
  • Næst skal gera nákvæma rekstrar- og efnahagsáætlun sem og raunhæfa tímaáætlun.

Nokkur atriði sem vert er að hafa í huga:

  • Fyrirtækjarekstur er flókið og viðamikið starf. Áður en farið er út í rekstur er nauðsynlegt að kynna sér marga hluti ítarlega, t.a.m varðandi bókhald og ýmsar reglugerðir. Þannig getur maður forðast að lenda í vandræðum og fá á sig álagningar eða lögsóknir.
  • Nýta skal vel öll tækifæri sem gefast til að auka við þekkinguna. Engar spurningar eru heimskulegar, en það er heimskulegt að spyrja ekki, þegar maður veit ekki eitthvað.
  • Eftir því sem reksturinn vex verður stjórnunin flóknari og krefst þá jafnvel utanaðkomandi aðstoðar.
  • Varast skal að verðleggja vöru og þjónustu út frá kostnaði einum saman. Gera þarf ráð fyrir hagnaði líka. Mikilvægt er að kynna sér hvað aðrir eru að taka fyrir sambærilega þjónustu eða vöru og verðleggja á raunhæfan hátt.
  • Öðruvísi markaðssetning getur verið áhrifarík – t.d. markpóstur og almannatengslanet á borð við Facebook. En það getur verið mismunandi eftir rekstri, hvers kyns markaðssetning hentar best. Það er dýrt að auglýsa og því er mikilvægt að hugsa auglýsingamálin vandlega til að ná sem best til síns markhóps.
  • Hugsa skal vel um viðskiptavinina, sérstaklega þá sem koma fyrstir í viðskipti. Orðspor fyrirtækisins er það dýrmætasta í rekstrinum og langbesta auglýsingin.
  • Mjög mikilvægt er að hafa fjármálin í góðu lagi. Greinargott og gegnsætt bókhald, gott eftirlit og síðast en ekki síst það að sýna ráðdeild í fjármálum er grundvöllur þess að reksturinn gangi upp.
  • Nýta skal tæknina sem best. Það veitir ákveðið forskot að tileinka sér tækni og nýjungar eins skjótt og hægt er. Og þá er ekki átt við að fjárfesta alltaf í nýjustu græjum, heldur fylgjast vel með og vera vakandi fyrir samtímanum.
  • Það er mikilvægt að muna að gagnrýni og ábendingar, t.a.m. frá viðskiptavinum, eru gagnleg tól að bættum rekstri og auknum hagnaði. Þegar maður fær neikvæða athugasemd græðir maður lítið á því að móðgast, en maður gæti grætt jafnvel helling af peningum við það eitt að skoða ábendinguna með jákvæðum augum og leita leiða til úrbóta.
  • Tímastjórnun og leiðir til að bregðast við streitu geta verið dýrmætir hæfileikar þegar fram í sækir og gert reksturinn mun langlífari og ánægjulegri.

 

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar