Að segja frá sér í atvinnuviðtali

Mörgum þykir erfitt að segja frá sjálfum sér, svara óvæntum spurningum um sjálfan sig og þurfa selja ímynd sína. Ein leið til þess að undirbúa sig fyrir það er að fara í rólegheitunum yfir farinn veg og skrifa ferilinn niður, líkt og æviágrip eða sögu. Inn í þetta má setja fyrri störf, ferðalög, nám og námskeið, hvar maður hefur búið og sitthvað annað sem maður hefur gert.

Til hvers að skrifa þetta niður eins og sögu?

Þótt mælt sé með að maður skrifi þetta niður, þá á alls ekki að skila þessu inn til vinnuveitandans. Þetta er einungis hjálpartæki fyrir mann sjálfan, til að búa mann undir það að segja frá sér í viðtalinu. Í raun er sagan hugsuð til þess að setja upp ferilskrána á mannamáli í huganum, svo maður eigi auðveldara með að svara spurningum án þess að þurfa að hugsa sig lengi um.

Hvernig skrifar maður sögu sína?

Áður en sagan er sett saman er nauðsynlegt að rifja upp nokkra hluti.

  • Að greina kaflana í lífi sínu. Rifja upp stóra viðburði og hluti sem hafa mótað mann. Þetta geta verið útskriftir, ferðalög, mismunandi störf og nám, ein vika í september eða jafnvel sumar í sveit. Meðfram þessu er hægt að velta fyrir sér hvaða reynslu maður öðlaðist, hvað maður lærði og hvaða áhrif þetta hafði á mann.
  • Að finna undirliggjandi þema í sögunni. Hvar liggja manns helstu ástríður? Hvað dreymir mann um að gera í framtíðinni? Hvað veitir manni ánægju og hver eru manns helstu markmið? Og hvernig tengist þetta vinnunni sem sótt er um?
  • Að horfa yfir starfsferilinn. Hvernig komst maður á þann stað sem maður er staddur á í dag? Hvers vegna valdi maður þessa braut? Hvað hafði áhrif á mann? Hafa markmiðin breyst í gegnum tíðina?

Hvað þarf sagan að innihalda?

Sagan þarf að vera einföld og hnitmiðuð – en á sama tíma þarf hún að gefa góða mynd af manni. Gott er að hafa eftirfarandi spurningar í huga, því þetta vilja vinnuveitendur oft fá að vita:

  • Lífshlaupið – hvernig hefur því verið háttað?
  • Hvað hefur fólk lært?
  • Hvaða árangri hefur fólk náð í lífinu?
  • Hver er áhugasvið fólks?
  • Hver eru markmið þess?
  • Hverjir eru draumarnir?

Ítarlegri spurningar sem gott er að velta fyrir sér

Til að kafa dýpra ofan í ferilinn, má reyna að svara eftirfarandi spurningum:

  • Græddi ég einhvern tíma peninga, eða tókst mér að vera hagsýnn og spara, annað hvort í einkalífi eða starfi?
  • Hvernig brást ég við álagstímum í starfi eða einkalífi? Hvaða leiðir fór ég til að jafna mig eftir erfitt tímabil?
  • Hver er reynsla mín af samvinnu við aðra? Hvernig hef ég unnið í hóp? Hvert var mitt framlag til verksins?
  • Hvernig hef ég tekist á við streituvaldandi þætti, í vinnu og einkalífi?
  • Hvenær hef ég þurft að vera við stjórnvölinn og hvernig hefur það gengið? Hvernig eru mínir leiðtogahæfileikar?
  • Hvernig hef ég tekist á við mistök mín?
  • Hvernig brást ég við þegar ég náði ekki markmiðum mínum?
  • Hvernig tókst ég á við hindranir? Þetta getur verið fólk sem stóð í vegi fyrir manni, utanaðkomandi þættir eða eitthvað innra með manni sjálfum.
  • Hvað olli því að ég skipti um braut og hvernig gekk það?

Hvernig nýtir maður söguna í atvinnuviðtalinu?

Þegar búið er að setja saman söguna getur verið sniðugt að æfa sig í að segja frá. Best er að æfa sig upphátt. Gott er að æfa sig með hjálp einhvers sem maður treystir; fá hann til að spyrja mann spurninga sem upp gætu komið í viðtalinu og fá aðstoð við að finna hnökra í frásögninni og laga hana til. Þegar maður er orðinn öruggur með frásögnina af sjálfum sér finnur maður hve áhugaverð hún er.

Fortíð og framtíð helst í hendur og maður fær skýrari mynd af því hver maður er og hvert maður stefnir. Mikilvægt er að sagan hafi tengingu við starfið sem sótt er um, endurspegli áhuga manns á því og kostina við það að ráða mann til starfa. Nauðsynlegt er að setja sig í spor þess sem tekur viðtalið og hugsa um hvernig frásögnin hljómar í hans eyrum. Markmiðið er að varpa fram mynd af manni sem einstaklingi og draga fram eiginleika og hæfni.

Yfirflokkurinn okkar Vinna inniheldur greinar um allt sem viðkemur atvinnuleit, ferilskrám, atvinnuleysi og ólíkum störfum svo eitthvað sé nefnt.

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar