Ólíkir hæfileikar nýtast í ólíkum störfum
Fólk býr yfir ólíkum hæfileikum, sem er eins gott, því þannig nýtast ólíkir kraftar hvers og eins til að vinna að sameiginlegu verkefni. Það er gott að skoða hæfileika sína vel og hvernig þeir geta nýst á ólíkum sviðum. Í námi þróar maður með sér ákveðna hæfileika og sérhæfir sig á ákveðnu sviði, en margir hæfileikar eru manni eðlislægir og geta nýst í mismunandi störfum. Því er gott að skoða reynslu sína, bæði af starfsferlinum sem og í einkalífi. Finni maður sig skorta einhverja ákveðna hæfileika er hægt að vinna markvisst að því að efla þá. Þótt fyrirtæki séu í ólíkri starfsemi meta mörg þeirra sömu kostina mikilvæga í fari starfsmanna sinna. Hér eru nokkrir þeirra:
Tjáning og samskiptahæfileikar
Hér er bæði átt við tjáningarfærni í rituðu og töluðu máli. Atvinnurekendur horfa til þess hversu vel starfsmenn geta miðlað upplýsingum, sín á milli og út á við. Þetta á jafnt við hvort sem um er að ræða bréfaskrif, tilkynningar, tölvupósta, samskipti í hóp, að tala frammi fyrir hópi fólks eða hvernig fólk nýtir símann og aðra samskiptatækni. Hér sýnir það sig einnig hvort fólk býr yfir miklum krafti til að sannfæra aðra, leiðbeina þeim og hversu faglegir þeir geta verið í framkomu.
Úrlausnir vandamála
Mörg fyrirtæki vinna við það að skapa nýjar lausnir. Í framleiðslu og þjónustu eru sífellt að koma upp ný vandamál sem krefjast þess að starfsmenn séu frjóir í hugsun og snjallir við að leita lausna. Hér kemur ákvarðanataka og skapandi hugsun til sögunnar sem og viljinn til að taka áhættu.
Samvinna
Það er frábær eiginleiki að geta unnið vel með öðrum, leyft öðrum að njóta sín en á sama tíma getað skilað sínu framlagi til verksins og haft áhrif á þróun mála. Mikilvægt er að skoða hvers vegna sumum hópum verður betur ágegnt en öðrum. Hlutverk hvers og eins innan hópsins skiptir máli. Hér koma sveigjanleiki og samskiptahæfni einnig til sögunnar, það að geta samtímis hlustað og virt sjónarmið annarra, en á sama tíma staðið fyrir sínu.
Frumkvæði
Það verður sífellt vinsælli eiginleiki að geta sýnt frumkvæði og sjálfstæð vinnubrögð í starfi. Vinnuveitendur eru lítið hrifnir af óvirkum starfsmönnum sem hlýða bara fyrirmælum um hvað þeir eigi að gera. Frumkvæði krefst sjálfsöryggis og hvetur fólk til meiri ábyrgðar. Það er líka ávallt frumkvæði einstaklingsins sem hrindir af stað nýrri þróun.
Leiðtogahæfileikar
Lengi var þetta vinsælasti hæfileikinn. Þó er ekki sniðugt að allir starfsmenn reyni að sölsa undir sig völdin og stjórna ferðinni. Nú til dags er meiri áhersla lögð á samvinnu. Leiðtogahæfileikar eru samt góður kostur og gott er að geta gripið til leiðtogahlutverksins þegar þörf er á, en að sama skapi geta gefið öðrum það eftir og hlýtt boðum annarra þegar það á við.
Sveigjanleiki
Sveigjanleiki verður líka sífellt mikilvægari kostur, þar sem samfélagið og þar með öll fyrirtæki og starfsemi, taka stöðugt örum breytingum. Stöðug tækniþróun krefst aðlögunarhæfni af fólki. Oft þarf maður að temja sér nýjar vinnuaðferðir, vinna með nýju fólki, við breytt fyrirkomulag og aðstæður og notast við nýja tækni. Sá sem er sveigjanlegur á mun meiri möguleika til að haldast í starfi en sá sem er ósveigjanlegur.
Þolinmæði
Þolinmæði er kostur sem allir kunna að meta og nýtist sérstaklega vel í störfum með fólki, t.d. kennslu og umönnunar- og þjónustustörfum. Að geta sýnt sjálfum sér, umhverfinu, samstarfsfólki og viðskiptavinum þolinmæði er samt kostur sem nýtist í öllum störfum.
Sköpunarkraftur
Alltaf er þörf á því að skoða hlutina upp á nýtt og fá ný sjónarhorn á málin. Gagnrýnin og skapandi hugsun er það sem drífur samfélagið, heldur því lifandi og í sífelldri mótun. Þessi eiginleiki helst í hendur við þann kost að eiga auðvelt með að finna úrlausnir vandamála. Með því að vera virkur og þora að taka afstöðu eflir maður skapandi hugsun.
Fróðleiksfýsn
Sá eiginleiki að hafa vilja til að læra nýja hluti, geta viðurkennt mistök eða að maður hafi rangt fyrir sér og kunni ekki svörin við öllum hlutum, er eiginleiki sem allir kunna að meta. Það sýnir kjark að geta spurt spurninga og borið sig eftir aðstoð annarra. Að sama skapi er það kostur að læra af mistökum sínum og geta viðurkennt þau. Fróðleiksfúsar manneskjur eru líflegar og áhugaverðar og taka stöðugum breytingum til hins betra.
Athyglisgáfa og auga fyrir smáatriðum
Hér kemur skynsemi og jarðtenging inn í myndina. Þessi kostur sker úr um hvort fólk er nógu athugult, með á nótunum og hvort það geti farið eftir fyrirmælum. Þetta sýnir einnig hvort fólk er ábyrgt, hvort það vandi sig við hlutina.
Allir kostir og hæfileikar eru mikilvægir, en þeir nýtast misvel í ólíkum störfum.
Með því að vera meðvitaður um styrkleika sína og veikleika getur maður stöðugt unnið að því að bæta sig og styrkja á þeim sviðum sem maður er veikastur fyrir.
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?