Hvað er kynningarbréf?

Kynningarbréf eða umsóknarbréf, er einskonar kynning á atvinnuumsækjandanum og fylgir með ferilskránni þegar sótt er um starf. Kynningarbréfið er ekki síður mikilvægt en ferilskráin og nauðsynlegt að senda það alltaf með atvinnuumsókn, líka þegar sótt er um í stöðluðum gagnagrunni á Netinu! Kynningarbréf og ferilskrá eru aðal sölutæki umsækjandans til tilvonandi vinnuveitanda.

Hvernig á kynningarbréfið að vera?

Kynningarbréfið er ekki eins formlega uppbyggt og ferilskráin. Gott er þó að hafa eftirfarandi í huga:

  • Í upphafi skal ávarpa þann sem sér um ráðningar hjá fyrirtækinu með nafni og starfstitli. Þetta getur verið starfsmannastjóri, framkvæmdastjóri eða eigandi en það fer allt eftir stærð fyrirtækisins.
  • Kynningarbréfið skal vera stutt og vel skrifað. Það má alls ekki vera meira en ein síða og æskilegt er að það sé á bilinu 200-400 orð.
  • Taka skal fram hvaða starfi sóst er eftir og hvers vegna. Gott er að sýna fram á grundvallarþekkingu á fyrirtækinu, starfsemi þess og fyrir hvað það stendur.
  • Tína skal til helstu kosti, reynslu og áhugasvið sem gætu gagnast í þessu tiltekna starfi. Mikilvægt er að rökstyðja hvers vegna fólk telur sig hæft í starfið. Ef atvinnuauglýsingin fer fram á að umsækjendur búi yfir ákveðnum kostum, er mikilvægt að sýna fram á að maður hafi þá.
  • Forðast skal allar óþarfa upplýsingar. Ferilskráin fylgir og hún inniheldur ítarlegri upplýsingar.
  • Gæta skal að allri framsetningu. Mikilvægt er að fá einhvern til að lesa kynningarbréfið og ferilskrána yfir. Mál- og stafsetningarvillur geta auðveldlega spillt fyrir góðri umsókn. Hnitmiðað og nákvæmt mál er líka yfirleitt betra en óþarfa skrúðmælgi.
  • Kynningarbréfið má ekki vera fjöldaframleitt! Ólíkt ferilskránni sem þarf ekki nema lítillega að uppfæra fyrir hverja umsókn, þarf kynningarbréfið að vera miðað efnislega að hverju starfi. Ákveðin samhljómur þarf að vera á milli þess og starfsins sem sótt er um.
  • Hugsa skal bréfið sem viðbót við ferilskrána. Bréfið dregur fram og leggur áherslu á það mikilvægasta í ferilskránni og bætir við upplýsingum sem skipta máli varðandi starfið, en eiga ekki heima í ferilskránni.
  • Notaðu einfalt letur eins og Arial, Verdana eða Times new roman.
  • Mundu að kynningarbréfið er góð leið til að ná athygli þess sem er að ráða í starfið, og því er mikilvægt að bréfið sé faglegt.
  • Í lok bréfs skal vísa í fylgigögn, svo sem ferilskrá og bjóða upp á að frekari gögn verði send, sé þess óskað.
  • Loks skal kveðja á jákvæðum nótum og með undirskrift.

 

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar