Þegar atvinnusamband er stofnað er starfsmaðurinn annað hvort launþegi, þ.e. vinnur undir stjórn og á ábyrgð launagreiðenda, eða sem verktaki (sjá nánari upplýsingar um verktaka á Áttavitanum). Launþegar gera ráðningarsamning við launagreiðanda sem getur bæði verið tímabundinn eða ótímabundinn samningur. Báðir ráðningarsamningarnir eru nokkuð líkir en þó er smá munur á sem gott er að hafa í huga.

Hver er munurinn?

Helsti munurinn á tímabundnum og ótímabundnum ráðningarsamningi er að búið er að ákveða starfslokin fyrirfram. Því er mikilvægt að gildistími hans komi skýrt fram frá þeim degi sem störf eiga að hefjast að síðasta degi.

Tímabundinn samningur getur einnig verið bundinn ákveðnu verkefni, t.d. afleysing í fæðingarorlofi/veikindaleyfi eða árstíðarbundið verkefni. Það þarf ekki að segja upp tímabundnum samningi, honum líkur einfaldlega á þeirri dagsetningu sem samið var um.

Athugið að sé ekki sérstaklega tekið fram að ráðningarsamningur sé tímabundinn, er hann sjálfkrafa ótímabundinn.

Réttindi starfsmanna með tímabundna ráðningu

Á meðan tímabundnum ráðningarsamningi stendur nýtur starfsmaðurinn allra almennra réttinda (s.s. veikindaréttar og orlofs) sem samið er um í kjarasamningi. Samkvæmt lögum skal einnig hafa í huga að:

Starfsmaður með tímabundna ráðningu skal hvorki njóta hlutfallslega lakari starfskjara né sæta lakari meðferð en sambærilegur starfsmaður með ótímabundna ráðningu af þeirri ástæðu einni að hann er ráðinn tímabundið nema það sé réttlætanlegt á grundvelli hlutlægra ástæðna.

Vinnuveitanda ber einnig skylda að veita starfsmanni með tímabundna ráðningu upplýsingar um störf sem losna innan fyrirtækis tímanlega, þ.m.t. hlutastörf, til að hann hafi sömu tækifæri til að vera ráðinn ótímabundið og aðrir starfsmenn. Heimilt er að veita slíkar upplýsingar í almennum tilkynningum á viðeigandi stöðum innan fyrirtækis.

Uppsagnarfrestur

Líkt og áður kom fram fellur tímabundin ráðning úr gildi við lok samningstíma án sérstakrar uppsagnar. Uppsagnarfrestur tímabundinnar ráðningar er alla jafna einn mánuður ef annað er ekki tekið fram í ráðningar- eða kjarasamning. Í sumum tilvikum getur þó 3 mánaða uppsagnarfrestur (líkt og í dæmigerðu ótímabundnu starfi) verið í gildi ef þú hefur lokið þremur mánuðum í starfi (reynslutími). Því er gott að kynna sér málið vel eða ráðfæra sig við stéttarfélagið áður en þú skilar inn formlegri uppsögn svo að uppsagnarfresturinn komi þér ekki á óvart.

Hvað get ég unnið lengi á tímabundinni ráðningu?

Lög nr. 139/2003 um tímabundna ráðningu starfsmanna gerir það óheimilt að framlengja eða endurnýja tímabundinn ráðningarsamning þannig að hann vari samfellt lengur en í tvö ár nema annað sé tekið fram í lögum. Vinnuveitandi skal þó ávallt leitast við að ráða starfsmann ótímabundið. Það er þó heimilt að endurnýja tímabundinn ráðningarsamning stjórnanda, sem gerður hefur verið til fjögurra ára eða lengri tíma, í jafnlangan tíma hverju sinni.

Heimildir:

Bandalag háskólamanna
VM
VR
Starfsgreinafélag

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar