Hvað er ráðningarsamningur?
Ráðningarsamningur er samningur á milli starfsmanns og vinnuveitanda um að hinn fyrrnefndi hafi verið ráðinn til starfa og hvaða kjör hann hlýtur. Vinnuveitandinn sér um að útbúa ráðningarsamninginn og er hann undirritaður af báðum aðilum. Í ráðningarsamningi felast upplýsingar um kaup og kjör, lengd ráðningar og fleira. Vinnuveitanda ber að fara að gildandi lögum og uppfylla kröfur kjarasamninga við gerð ráðningarsamningsins. Ráðgjafar stéttarfélaganna geta veitt upplýsingar um hvort allt sé með felldu í ráðningarsamningnum.
Hvenær er þörf á að gera skriflegan ráðningarsamning?
Ef starfsmaður er ráðinn til lengri tíma en eins mánaðar og að meðaltali lengur en í átta klukkustundir á viku mega ekki líða meira en tveir mánuðir þar til skrifað er undir ráðningarsamning.
Hvernig á ráðningarsamningur að vera?
Ráðningarsamningar eru oftast gerðir í þríriti. Eitt eintak fer til starfsmannsins, annað til yfirmanns og það þriðja til launadeildar fyrirtækisins. Laun eru ekki greidd fyrr en frumrit ráðningarsamnings hefur borist, en þá fyrst telst ráðningin fullgild.
Ráðningarsamningur á að innihalda:
- Nafn og kennitölu beggja aðila.
- Vinnustaður og heimilisfang vinnuveitanda (starfsstöð).
- Titill, staða, eðli eða tegund starfs sem starfsmaður er ráðinn í eða stutt útlistun eða lýsing á starfinu.
- Fyrsti starfsdagur.
- Lengd ráðningar sé hún tímabundin.
- Orlofsréttur.
- Réttur til launa í veikindum.
- Uppsagnarfrestur af hálfu vinnuveitanda og starfsmanns.
- Mánaðar- eða vikulaun, t.d. með tilvísun til launataxta, aðrar greiðslur eða hlunnindi svo og greiðslutímabil.
- Vinnutímaskipular og starfshlutfall.
- Lífeyrissjóður og stéttarfélag.
- Tilvísun til gildandi kjarasamnings og hlutaðeigandi stéttarfélags.
Dæmi um ráðningarsamninga
Mörg fyrirtæki eru með sína eigin ráðningarsamninga, en einnig er hægt að finna staðlaða samninga hjá stéttarfélögum og vinnumálastofnun.
- Ráðningarsamningur á íslensku og ensku frá vinnumálastofnun
- Ráðningarsamningur frá VR sem auðvelt er að fylla inn í á netinu og prenta svo út
- Ráðningarsamingur til niðurhals frá ASÍ (Word-snið)
Yfirflokkurinn okkar Vinna inniheldur alls kyns greinar um atvinnulífið, réttindi, ráð og skyldur!
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?