Verktaki eða launþegi?

Að vinna sem verktaki er í einhverjum tilfellum óhagstæðara en að vera launþegi. Í sumum iðnaðarstéttum getur verið erfitt að finna störf sem launamaður – þetta á t.d. við um iðnstéttir eins og smiði, pípara og múrara og störf í kvikmynda- og dagskrárgerð. Ákveðin auka vinna fylgir því að vera verktaki. Fólk þarf sjálft að standa skil á ýmsum gjöldum og sköttum sem og að halda úti bókhaldi. Hægt er að kaupa sér þessa þjónustu, en það kostar sitt. Verktakavinna hefur þó sína kosti líka. Ef fólk hefur úr nógum verkefnum að velja getur það ráðið hversu mikið það vinnur og þannig stjórnað dálítið tekjum sínum eftir hentisemi. Verktakar eru þannig sínir eigin yfirmenn.

Njóta verktakar sömu réttinda og launafólk?

Lög og kjarasamningar tryggja launafólki ýmis réttindi sem verktakar njóta ekki. Verktakar fá ekki borgað orlof eða desemberuppbót, ekki sumarfrí og fá ekki greidda veikindadaga. Þeir fá ekki greitt úr ábyrgðarsjóði launa ef fyrirtækið sem þeir vinna fyrir verður gjaldþrota og enginn uppsagnarfrestur gildir. Þrátt fyrir að greiða tryggingagjald hafa verktakar takmarkaðan rétt á atvinnuleysisbótum.

Hversu mikið þurfa verktakar að greiða í lífeyrissjóð?

Verktakar greiða sjálfir í lífeyrissjóð, bæði sem launamenn og sem atvinnurekendur því þeir eru í vinnu hjá sjálfum sér. Launamaður borgar 4% í lífeyrissjóð af launum sínum og á móti honum greiðir vinnuveitandinn 8%. Verktaka er því skylt að greiða 12% af tekjum sínum í lífeyrissjóð. Verktökum er auðvitað heimilt að greiða sér viðbótarlífeyrissparnað, en þá greiða þeir einnig bæði hlut launþega og vinnuveitanda.

Verktakar þurfa að standa skil á fjölda gjalda og skatta

Verktaki þarf sjálfur að standa skil á öllum lífeyrissjóðsgreiðslum, tryggingum, sköttum og öðrum opinberum gjöldum og senda viðeigandi reikninga og plögg inn til stofnana.

 Oft er sagt að verktaki þurfi að hafa 50-70% hærri tekjur en launamaður til að geta talist hafa sambærileg kjör.

Gott er að vita . . .

  • Að verktakar þurfa að skrifa út reikninga og annast innheimtu sjálfir.
  • Verktakar þurfa að sækja um virðisaukaskattsnúmer, oft kallað vasknúmer, þegar tekjur þeirra hafa náð einni milljón króna á ári.
  • Verktakar þurfa sjálfir að standa skil á virðisaukaskattsgreiðslum, eða vaski. Áður en árstekjur ná 1,4 milljónum króna eru þær greiddar einu sinni á ári, þann 5. febrúar. Fari upphæðin yfir það er vaskur greiddur á 2ja mánaða fresti.
  • Verktakar þurfa að ábyrgjast að skila inn reikningum fyrir lífeyrissjóðsgreiðslum, staðgreiðslu af tekjuskatti og virðisaukaskatti til viðeigandi stofnana.

 

 

 

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar