100 krónur – Hrognkelsi
Fræðiheiti: Cyclopterus lumpus
Fiskurinn á 100 krónu myntinni heitir hrognkelsi. Karlkyns hrognkelsi kallast rauðmagi en kvenkyns hrognkelsi kallast grásleppa. Gömul saga segir frá tilurð hrognkelsa og marglyttu, en hún er þannig að Jesús, Sankti Pétur og Kölski hafi gengið meðfram sjónum og hrækt í hann. Hráki Jesúm breyttist í rauðmaga, hráki Péturs í grásleppu, en hráki Kölska í marglyttu.
50 krónur – Bogkrabbi
Fræðiheiti: Carcinus maenas
Á fimmtíu krónu klinkinu er bogkrabbi, sem einnig er kallaður strandkrabbi. Bogkrabbar eru með tíu fætur, en fremsta parið er ummyndað í gripklær og öftustu sex fæturnir flatir og með þeim geta skjaldkrabbar synt, en engir aðrir krabbar geta það. Maður getur þekkt bogkrabba frá öðrum kröbbum á því að þeir hafa fimm gadda á hvorri hlið skeljarinnar að framanverðu og þrjá hnúða milli augnanna.
10 krónur – Loðna
Fræðiheiti: Mallotus villosus
Fiskarnir fjórir sem prýða tíkallinn er loðna. Loðnan er smávaxinn fiskur sem heldur sig í torfum uppi í sjó. Loðnan er algeng í köldum sjó. Loðna er brædd og notuð í fiski- og dýrafóður og lýsisframleiðslu, en er einnig notuð til manneldis. Loðnuhrogn eru eftirsótt matvara í Japan.
5 krónur – Höfrungur
Fræðiheiti: Delphinus delphis
Höfrungur er fremur lítill tannhvalur og er ein af tveimur tegundum í ættkvíslinni Delphinus. Höfrungar sjást oftast í stórum hópum, hundruð eða þúsundir einstaklinga. Þeir fylgja oft skipum og bátum. Höfrungar eru einna þekktastir fyrir framlag sitt í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva, en þeir voru í bakgrunni fyrir Jóhönnu Guðrúnu þegar hún lenti í 2. sæti árið 2009.
1 króna – Þorskur
Fræðiheiti: Gadus
Fiskurinn á einu krónunni er þorskur. Þorskur er vinsæll matfiskur með þétt hvítt kjöt. Þorsklifur er brædd í þorskalýsi sem er mjög hollt. Lengsti þorskur sem vitað er um af Íslandsmiðum mældist 181 cm, sem er svona sirka meðalkarlmaður, en algeng stærð er um 62-65 cm. Þorskurinn var í miklu aðalhlutverki í þorskastríðunum fjórum sem voru á milli Íslands og Bretlands á árunum 1958 til 1976.
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?