Hvað eru vextir?
Vextir eru það gjald sem greitt er fái fólk lánaða peninga. Með öðrum orðum: vextir eru leigan sem greidd er fyrir lán á peningum. Vextir eru tilkomnir vegna þess að eigandi peninganna (sá sem lánar, t.d. banki), getur ekki nýtt þá á meðan þeir eru í láni hjá öðrum (lántakandanum). Þess vegna eru peningarnir leigðir út gegn greiðslu og leigan eru vextirnir.
Hvernig virka vextir?
Þegar fólk leggur peninga inn á bankabók er það í raun og veru að lána bankanum peningana. Því borgar bankinn leigu af peningunum, eða vexti. Þegar banki lánar svo fólki peninga, s.s. með yfirdrætti eða húsnæðisláni, þarf fólk að greiða bankanum leigu á peningunum.
Talað er um innlánsvexti og útlánsvexti
Innlánsvextir eru þeir vextir sem bankar greiða fólki fyrir að geyma peninga inn á bankareikningi. Útlánsvextir eru þeir vextir sem fólk greiðir bönkunum fyrir lán, s.s. yfirdrátt eða húsnæðislán.
Vextir hafa ákveðið vaxtatímabil
Það þýðir að leigan er greidd reglulega fyrir ákveðið tímabil. Um þetta er gert samkomulag á milli þess sem lánar og þess sem fær lánað. Vextir geta því verið reiknaðir og greiddir daglega, mánaðarlega eða árlega.
Hvað eru stýrivextir?
Stýrivextir eru settir af Seðlabanka Íslands til að reyna að hafa áhrif á þá vexti sem bankar og fjármálastofnanir setja. Einnig geta stýrivextir haft talsverð áhrif á gengi gjaldmiðils. Þegar stýrivextir eru hækkaðir er verið að reyna að hægja á efnahagslífinu, berjast gegn verðbólgu og hækka gengi gjaldmiðils. Þegar þeir eru lækkaðir er verið að reyna að minnka virði gjaldmiðils og örva efnahagslíf.
Hvað eru dráttarvextir?
Dráttarvöxtum er beitt þegar skuld er ekki greidd á umsömdum tíma. Þannig er heimilt að krefja skuldara um ákveðna vexti á því tímabili sem líður frá umsömdum gjalddaga og þar til greiðsla skilar sér. Seðlabanki Íslands ákveður hversu háir dráttarvextir eru.
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?