Tímasetningin skiptir öllu máli

Ef ekkert er tekið fram um laun í atvinnuauglýsingu þarf sennilega að ræða slíkt síðar meir – stundum í atvinnuviðtalinu sjálfu. Aldrei skal þó byrja að ræða laun eða önnur fríðindi fyrr en manni hefur verið boðin staðan. Mikilvægt er að sýna fram á kosti sína og hve mikið maður mun leggja til fyrirtækisins í framtíðinni áður en umræða um laun fer fram.

Maður þarf að hafa raunhæfar hugmyndir um hvers virði maður er

Finna þarf út hver meðallaunin eru, fyrir fólk eins og mann sjálfan; fólk með sambærilega menntun, reynslu og í þessu tiltekna fagi. Þannig er hægt að komast að því hvað er raunhæft að fara fram á mikil laun. Nauðsynlegt er að geta rökstutt það fyllilega hvers vegna vinnuveitandinn eigi að greiða þau laun sem farið er fram á. Þessum upplýsingum má t.a.m. leita að í kjarasamningum.

Horfa þarf á málið út frá vinnuveitandanum

Einnig er nauðsynlegt að geta rökstutt upphæðina með raunverulegum dæmum um hversu mikils virði persónulegt framlag manns til verksins og fyrirtækisins er. Allir búa yfir ákveðnum kostum sem þeir geta nýtt sér til framdráttar. Sjálfsþekkingin er mikilvæg og meðvitund um styrkleika og veikleika. Er framlagið líklegt til að auka afköst eða sparnað? Er líklegt að maður geti sett fram nýjar lausnir? Býr maður yfir þekkingu eða reynslu sem erfitt er að finna? Ef maður segði starfinu lausu, hversu dýrt yrði að þjálfa nýjan starfsmann sem sinnt gæti starfinu jafn vel?

Þau sem geta sett sig í stöðu beggja, báðum megin  borðsins, eru mun líklegri til að ná árangri í samningaviðræðum.

Horfa á fleiri möguleika

Í samningaviðræðum fær fólk ekki alltaf það sem það fer fram á – og síst af öllu í launaviðtölum. En það getur ýmislegt verið dýrmætt annað en beinharðir peningar. Gott er að vera viðbúinn höfnun en fara þá fram á aðra kosti. Gæti verið hægt að árangurstengja launin í formi bónusa? Gæti fyrirtækið veitt fría Nettengingu, farsíma eða bensínpeninga? Getur það veitt afslátt af vörum eða þjónustu, hjá fyrirtækinu sjálfu eða annarsstaðar? Er hægt að fara fram á sveigjanlegri vinnutíma eða fá að vinna að hluta til heiman frá?

Að lokum

Hvað sem kemur út úr samningaviðræðunum, hvort sem maður fékk það sem maður vildi, -eða ekkert af því, þá er tilefni til að fagna því að hafa stigið þetta skref og látið í ljós óskir sínar. Maður lærir alltaf eitthvað nýtt af hverjum samningaviðræðum. Mikilvægt er að taka því ekki persónulega, ef samningaviðræður ganga illa, og muna að launasamningar snúast um bláköld bókhaldsmál, en ekki þá persónu sem maður hefur að geyma.

Nánari upplýsingar:

Laun eftir starfsgreinum – VR

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar