Endaþarmsmök geta verið eðlilegur hluti af kynlífi karla, kvenna og kynsegin.  Fólki getur þótt gott og kynæsandi að hafa rassinn og endaþarminn með í kynlífsleikjum.  Þetta á ekki meira við um eina kynhneigð en aðra.  Endaþarmsmök þurfa ekki endilega að vera typpi sem fer í endaþarminn heldur líka aðra örvun við endaþarminn, eins og með fingri, tungu eða kynlífsleikfangi.

Það borgar sig að fara varlega

Það þarf að fara varlega við endaþarmsmök, báðir aðilar ættu að njóta.  Fara hægt og rólega, tala saman, nota sleipiefni og verjur.  Mikilvægasta af öllu er að báðir aðilar séu til í að prófa, og ef ekki er farið varlega eða ef einstaklingurinn er ekki til í þetta þá spennist hringvöðvinn í endaþarminum saman og þá getur verið sársaukafullt að fá nokkuð þar inn. En við að fara hægt og gæla við endaþarminn og einsktaklingurinn slakar á, þá slaknar hringvöðvinn líka og auðveldara er að renna inn í endaþarminn.  Nauðsynlegt er að nota sleipiefni því að endaþarmurinn framleiðir ekki smurningu sjálfur og því mjög mikilvægt að nota sleipiefni til að upplifunin verði sem þægilegust.  Aldrei að troða eða nota afl til að þrýsta inn í endaþarminn.

Það er gott að prufa sig áfram með stellingar, það eru stellingar sem geta hjálpað til.  Hafa fætur sem mest í sundur og lyfta fótum upp að maganum er líklega sú sem hjálpar mest til, eða vera á fjórum fótum.  Það er erfitt að komast inn ef rassinn eða rasskinnarnar eru klemmdar saman eins og þegar einstaklingur liggur á hliðinni.

Endaþarmurinn er tilfinningaríkt svæði hjá báðum kynjum og mikið af taugaendum sem liggja þar sem geta aukið ánægju í kynlífinu. Karlmenn hafa blöðruhálskirtil nálægt endaþarminum og þegar hann er örvaður er möguleiki að fá mikla vellíðunartilfinningu og á fullnægingu.

Muna eftir hreinlætinu

Hreinlæti er mjög mikilvægt, ef að typpi, kynlífsleikfang eða fingur á að fara inn í endaþarminn þá er gott að nota smokk.  Þá er auðvelt að taka hann af eða skipta um smokk ef typpið, fingurinn eða kynlífsleikfangið fer eftir það í munn eða píku.  Það eru bakteríur í endaþarminum sem er vont að fá í píkuna eða munninn, það getur valdið sýkingum.

Ef farið er varlega þá eru endaþarmsmök ekki hættuleg.  Endaþarmsopið teygist út við gælurnar en dregst svo aftur saman eftir á.  Ef farið er of hratt eða harkalega þá mun einstaklingurinn finna til og mögulega geta komið sár við endaþarmsopið.  Því ætti að hætta strax ef þetta er ekki lengur gott.

Mikilvægasta af öllu eru samskiptin, tala saman og treysta.  Láta vita hvað sé gott og hvenær þarf að hægja á eða stoppa.  Það ætti að spá vel í hvort þú ert til í að prófa, og ef þú finnur út þegar byrjað er að þú skiptir um skoðun þá er mikilvægt að láta vita og stoppa.

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar