Hver eru einkenni kynfæravarta?

Kynfæravörtur myndast við og á kynfærum. Þær sjást vel með berum augum og hafa dæmigert útlit: eru ýmist flatar eða upphleyptar, rauðleitar, brúnleitar eða húðlitaðar. Þær geta valdið kláða og ertingu. Konur með vörtur í leggöngum eða leghálsi geta fundið til sársauka við samfarir. Alls ekki allir verða varir við sýkingu. Vörturnar koma í ljós frá þremur vikum og allt að tveimur árum eftir smit.

Eru kynfæravörtur hættulegar?

Vörturnar sjálfar eru skaðlausar. Þær eru í húðinni eða á slímhúð, fara ekki inn í blóðrásina og hverfa oftast af sjálfu sér. Nokkrar tegundir kynfæravörtuveira geta aftur á móti valdið frumubreytingum sem leitt geta til krabbameins í leghálsi. Nauðsynlegt er því fyrir konur að fara reglulega í leghálsstrok og eftirlit, t.d. á Leitarstöð krabbameinsfélagsins eða til kvensjúkdómalækna.

Hvernig eru kynfæravörtur greindar?

Kynfæravörtur eru greindar með læknisskoðun. Hægt er að hafa samband við göngudeild húð- og kynsjúkdóma eða heimilislækni.

Hvernig eru kynfæravörtur meðhöndlaðar?

HPV-veiruna er ekki hægt að meðhöndla sem slíka þar sem engin lyf geta drepið hana. Hins vegar eru til nokkurs konar meðferðir gegn vörtunum sjálfum:

  • Áburður sem fæst gegn lyfseðli er borinn á vörtusvæðið tvisvar sinnum á dag í þrjá daga. Þetta er endurtekið þar til þær hverfa.
  • Frysting með köfnunarefni, sem oftast þarf að endurtaka nokkrum sinnum með 1 til 3 vikna millibili.
  • Deyfing og brennsla með rafmagni eða leysigeislameðferð.

Flestar vörtur hverfa fyrr eða síðar af sjálfu sér, en oft getur liðið langur tími þar til þær hverfa. Veiran sem veldur vörtunum hverfur ekki við meðferð og því geta vörturnar komið fram aftur seinna.

Nýlega komu á markaðinn bóluefni gegn algengustu vörtuveirunum. Stúlkur og ungar konur geta fengið bólusetningu, hafi þær ekki orðið fyrir vörtusmiti. Allgóð vörn fæst gegn kynfæravörtum og leghálskrabbameini eftir slíka bólusetningu.

Hvernig smitast kynfæravörtur?

HPV-veirur smitast með snertingu húðar eða slímhúðar við sýkta húð/slímhúð. Við munnmök er hægt að  fá þessa veirusýkingu í munninn. Vörtur í munni eru þó sjaldgæfar.

Hvernig er hægt að koma í veg fyrir smit?

Smokkur er eina vörnin gegn smiti en hann verndar aðeins þann hluta kynfæranna sem hann hylur. Hann er því ekki fullkomin vörn gegn smiti því að slímhúð og húð sem ekki eru hulin geta sýkst við samfarir.

 

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar