Af hverju að fá sér meðleigjenda?

Með því að fá sér meðleigjanda er hægt að lækka leigukostnaðinn töluvert. Auk þess opnast möguleiki á að leigja stærra rými en ella. Að leigja með annarri manneskju getur komið sér vel þegar kemur að matarinnkaupum, greiðslu reikninga á borð við hita, rafmagn og Netið og einnig er gott að geta hjálpast að við þrif. Meðleigjandinn gæti líka e.t.v. lagt eitthvað til heimilisins sem hinn á ekki. Það getur verið ákveðið öryggi fólgið í því að búa með annarri manneskju, til dæmis ef eitthvað kemur upp á, og gott er að vita af einhverjum heima við þegar maður fer í frí.

Best er að þekkja meðleigjandann áður en sambúð hefst

Meðleigjendur þurfa ekki að vera bestu vinir. Raunar er það stundum þannig að vinir geta ekki búið saman. En meðleigjendum verður þó að semja vel og geta rætt málin sín á milli. Þetta þarf auðvitað allt sambýlisfólk að finna út, en góð regla er að leigja aldrei með manneskju sem maður veit ekkert um.

Að vera á sömu bylgjulengd

Þegar meðleigjandi er valinn er nauðsynlegt að það sé einstaklingur sem er á svipaðri „bylgjulengd“ og maður sjálfur: Kjósi maður að eiga friðsælt og rólegt heimili þýðir lítið að leigja með einhverju partýljóni. Slík sambúð verður aldrei farsæl.

Best er að setja reglur fyrirfram

Þannig vita báðir aðilar við hverju er búist af þeim. Er í lagi að hafa næturgesti? Má halda partý, hvernig partý og á hvaða tímum? Hvenær þarf að lækka í tónlistinni? Hve oft þarf að þrífa? Má annar meðleigjandinn fá sér af kornflexi hins? Ef slíkir hlutir eru skýrir frá upphafi er ólíklegt að upp komi ósætti eða vandræði.

Sameiginleg ábyrgð

Gæta þarf þess að báðir leigjendurnir hafi einhvers konar ábyrgð gagnvart leigusalanum, s.s. að þeir skrifi báðir undir leigusamning. Ef svo er ekki, gæti annar aðilinn látið sig hverfa fyrirvaralaust og skilið hinn eftir í súpunni.

 

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar