Hvað eru neytendaréttindi?

Öllum er mikilvægt að þekkja réttindi sín þegar kemur að kaupum, sölu og leigu á vörum og þjónustu. Það segir sig sjálft að auðveldast er að svindla á þeim sem eru illa að sér í lögum og réttindum – og hætt er við að ungmenni og ungt fólk sé í þessum hópi. Því er um að gera að kynna sér þessi mál vel.

Hverjir fara með réttindi neytenda?

Þó nokkur embætti og stofnanir verja hagsmuni og réttindi neytenda. Fyrst mætti nefna Neytendastofu. Neytendastofa gætir öryggis og réttar neytenda í viðskiptum; fylgist með lagalegum framkvæmdum, miðlar upplýsingum og heldur uppi virku eftirliti. Neytendastofa tekur einnig á móti fyrirspurnum og nafnlausum ábendingum frá almenningi. Neytendasamtökin og Hagsmunasamtök heimilanna  standa líka vörð um réttindi neytenda, en þau eru frjáls félagasamtök. Að lokum má nefna Samkeppniseftirlitið en það gætir þess að samkeppni á markaði sé sanngjörn og virk.

Hvar er hægt að finna upplýsingar um réttindi neytenda?

Þó nokkrar síður halda úti upplýsingum um réttindi neytenda. Mætti þar nefna:

  • Netsíðuna Neytandi.is. Hún hefur að geyma greinargóðar upplýsingar um réttindi neytenda í 15 málaflokkum. Þar má finna svör við algengum spurningum og góða fræðslu um neytendaréttindi. Sem dæmi um efnisflokka mætti nefna matvæli, tryggingar, orkumál, gjafabréf og inneignarnótur.
  • heimasíðu Neytendasamtakanna  en þar má finna töluvert af upplýsingum, m.a. um kaup á utanlandsferðum, réttindi leigjenda og innihaldslýsingar á matvælum. Hægt er að skrá sig í samtökin og öðlast þannig ákveðin hlunnindi. Frekari upplýsingar um þjónustu sem félagsmenn fá má nálgast hér.
  • síðuna Ísland.is en þar er kafli um neytendamál. Þarna má finna ýmsar upplýsingar í fjórum málaflokkum en þeir eru: kaup og samningar, vöruöryggi, ráðgjöf, kvartanir og réttaraðstoð, og verðlag og verðmerkingar.ndas

Hvert er hægt að senda fyrirspurnir og ábendingar sem varða neytendamál?

Ef fólk telur að brotið hafi verið á rétti sínum en finnur ekki upplýsingar um það á netsíðunum hér að ofan er hægt að senda fyrirspurn til Neytendastofu. Það er gert hér.

Ef fólk verður vart við eitthvað sem gæti brotið á rétti neytenda er einnig hægt að senda nafnlausar ábendingar til Neytendastofu.

 

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar