Hvað er stjórnarskrá?

0
3652

 

Stjórnarskrá eru grundvallarlög ríkis og leiðbeiningar um önnur lög. Hún hefur gildi umfram önnur lög og venjulega er mun erfiðara að breyta henni en öðrum lögum.

Stjórnarskrár segja til um nokkur grundvallaratriði samfélagsins, hvað yfirvöld mega gera og ekki síður hvað þau mega ekki gera.
Þær kveða á um réttindi borgaranna og setja ramma utan um völd og hlutverk valdhafa; hvað þingið gerir, hvað þjóðhöfðinginn gerir, hvað dómstólar gera, kosningar og þess háttar. Þær fjalla líka oft um atriði eins og grundvallargildi samfélagsins, þjóðfána, þjóðkirkju, tungumál, kjörorð þjóðarinnar o.fl.

Hvaðan kemur stjórnarskrá Íslands?

Eftir frönsku lýðræðisbyltinguna 1789 og frelsisstríðið í Bandaríkjunum 1776 settu þjóðirnar sér eigin stjórnarskrá, þar sem kveðið var á um fulltrúalýðræði* og mannréttindi.

Næstu áratugi og aldir varð lýðræðisbylting um víða Evrópu, þar sem flestar þjóðir álfunnar tóku upp stjórnarskrá að franskri fyrirmynd; meðal annarra Danir, árið 1849. Næstu áratugi börðust Íslendingar fyrir sjálfstæði undan Danmörku og eigin stjórnarskrá.

Tillögur Alþingis Íslendinga að eigin stjórnarskrá byggðu að mestu á dönsku stjórnarskránni frá 1849 en Danir voru ósammála um sambandið við Danmörku og framkvæmdavaldið* á Íslandi. Konungur Danmerkur gaf Íslendingum sína eigin stjórnarskrá árið 1874, sem byggði á dönsku stjórnarskránni en líktist tillögum Alþingis, þó hún færi eftir hugmyndum Dana um samband þjóðanna.

Hvernig hefur stjórnarskráin breyst síðan við fengum hana fyrst?

Eftir að Íslendingar lýstu yfir fullveldi árið 1918 fengu þeir aðra stjórnarskrá sem tók gildi 1920 og þá þriðju fengu þeir árið 1944, eftir að þjóðin lýsti yfir sjálfstæði. Þær breytingar fjölluðu m.a. um fullveldi landsins, íslenskt framkvæmdavald og stöðu þjóðhöfðingjans.

Síðan þá hefur íslensku stjórnarskránni verið lítið breytt, fyrir utan ákvæði um kosningaaldur* og kjördæmaskipan.

Mannréttindakafla stjórnarskrárinnar var hins vegar breytt mikið árið 1995 og í dag liggur fyrir Alþingi tillaga að nýrri stjórnarskrá frá Stjórnlagaráði* og munu Íslendingar kjósa um ýmsa þætti hennar 20. október 2012.

Stjórnarskrár segja til um nokkur grundvallaratriði samfélagsins, hvað yfirvöld mega gera og ekki síður hvað þau mega ekki gera.

Sjá einnig:

Myndbandið sem fylgir greininni var gert af Stjórnlögum Unga Fólksins.

 

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar