Þarftu að uppfæra tölvubúnaðinn þinn? Eða ertu kannski að kaupa þína fyrstu tölvu?  Tölvukaup geta verið ansi snúin. Það eru ýmsir möguleikar á markaðnum og getur verið erfitt að rata um öll þessi hugtök. Hér eru helstu atriðin sem þú þarft að hafa í huga þegar þú hyggur á tölvukaup:

PC eða Apple?

Til er fjöldi tölvuframleiðenda (Dell, Apple, HP, ASUS o.fl. en almennt er talað um tvær megintegundir af tölvum; PC og makkar. PC stendur fyrir personal computer og slíkar tölvur eru framleiddar af ýmsum framleiðendum, t.d. Dell, HP og Toshiba. Þær eru yfirleitt heldur ódýrari en makkar og yfirleitt notar fólk Windows-stýrikerfi með slíkum tölvum, þó margir kjósi líka að nota Linux, sem er opið stýrikerfi. PC tölvur henta vel til tölvuleikjaspilunar vegna gríðalegs framboðs á leikum sem í boði er fyrir þær, sem og almennrar tölvuvinnu. Makkar eru aðeins framleiddir af einu fyrirtæki: Apple. Þeir eru dýrari en þykja notendavænni og með betri heildarlausnir, til dæmis með því að láta síma, tölvu, sjónvarp og fleira tala saman. Margir í skapandi störfum nota einungis makka, enda þykja þeir góðir til hvers kyns myndbandavinnslu, tónlistarupptöku og grafík (en PC þykja þó ekkert síðri).

Sumir nota bæði makka og PC, á meðan aðrir halda sig við annan kostinn frá barnæsku til dauðadags.

Framleiðandi

Framleiðandi tölvunnar skiptir helst máli þegar kemur að bilanatíðni og þjónustu við tölvuna þegar eitthvað kemur upp á. Sumir framleiðendur hafa umboð hér á landi sem annast viðgerðir og þá er er viðgerðartími almennt styttri, þar sem ekki þarf að senda tölvuna úr landi í ábyrgðarviðgerð og/eða bíða lengi eftir varahlutum.

Einnig ber að nefna að sumir framleiðendur bjóða heimsábyrgð, þannig að ef ske kynni að tölvan bilaði erlendis, þá væri hægt að sækja þjónustu þar.
Helstu fartölvuframleiðendur á íslenskum markaði eru: Acer, Alienware, Apple, Asus, Dell, Dreamware, Fujitsu, HP, Lenovo og Toshiba.

Stýrikerfi (e. Operating System)

Stýrikerfi er mikilvægasti hugbúnaðurinn á tölvunni. Það stillir saman vinnsluminnið, aðgerðir og allan hugbúnað og vélbúnað. Það gerir þér líka kleyft að eiga í samskiptum við tölvuna, án þess að þú þurfir að kunna tungumál tölvunnar.

Þrjár megingerðir stýrikerfa eru MAC OS X (aðallega notað á Apple tölvum), Microsoft Windows (PC tölvur) og GNU/Linux (PC tölvur) sem er regnhlífarheiti yfir fjölda opinna stýrikerfa þar sem grunnkóði stýikerfisins er aðgengilegur og notandinn (og aðrir) geta fiktað af vild í stýrikerfinu og hugbúnaði þess. Nýlega hefur Chromebook verið að ryðja sér til rúms; en það eru tölvur sem byggja á Chrome OS stýrikerfinu sem hentar aðallega notendum sem nota tölvuna mest á netinu og hafa litla þörf fyrir annan hugbúnað.

Skjástærð

Skjástærð segir til um hversu stór skjárinn er, frá horni í horn.
Almennt séð helst stærð og þyngd tölvunnar í hendur við skjástærðina, þannig það getur haft áhrif á valið. Ætlarðu að ferðast mikið með tölvuna eða verður hún mestmegnis á sama stað?  Ef þú ætlar að vinna í einhvers konar myndvinnslu er gott að hafa stóran skjá, en ef þú ætlar að vera með fleiri aukaskjái er kannski alveg nóg að hafa lítinn skjá á fartölvunni sjálfri.

Upplausn (e. Resolution)

Upplausn segir til um hversu margir pixlar eru á skjánum. Því fleiri pixlar, því meira er vinnuplássið á skjánum. Pixlar eru litlir kassar sem skipta um lit og mynda saman myndina sem þú sérð.
Fyrri talan segir til um fjölda pixla lárétt yfir skjáinn og seinni talan lóðrétt.

Tökum sem dæmi skjá með upplausn 1920×1080, hann hefur 1920 pixla lárétt yfir skjáinn og 1080 pixla lóðrétt. Þessi upplausn er betur þekkt sem full HD, sem þýðir að hann getur sýnt myndbönd í HD-gæðum.

Mismunandi skjástærð, sama upplausn

Nú flækjast málin.  Skjáir sem eru misstórir geta samt verið með sömu upplausnina. Til dæmis gæti fartölvan þín verið með 13” skjá með upplausnina 1280 x 800, en borðtölvan þín með 17” skjá með sömu upplausn. Þó að borðtölvuskjárinn þinn sé stærri þá kemur þú ekki neinu aukalega fyrir á skjáborðinu, myndir og texti virðast bara stærri.

Örgjörvi (e. CPU)

Örgjörvi segir til um hráa reiknigetu tölvunar. Hann hefur því áhrif á hvernig notkun tölvan ræður við.

Flestir örgjörvar í fartölvum sem seldar eru í dag duga fyrir venjulega heimilisnotkun, þ.e. vefráp og skóla- eða skrifstofuvinnslu. Það er því óþarfi að fjárfesta í tölvum með mjög öflugum örgjörva ef ekki á að nota tölvuna mikið í mjög þunga vinnslu, s.s. hljóð- og myndvinnslu.

Almennt kæmi betur út þegar kaupa á tölvu fyrir heimilis- eða skólanotkun að leggja meiri áherslu á að tölvan sé með SSD disk eða mikið vinnsluminni, þar sem þeir þættir hafa talsvert meiri áhrif á notendaupplifun þeirra.  Til eru tvær megingerðir af örgjörvum; Intel og AMD.

Harður diskur (e. Hard Drive)

Diskur tölvunar er það geymslurými sem tölvan hefur og eru í dag allt frá 32GB upp í ríflega 2TB. Vinsælustu hörðu diskarnir eru HDD, SSD og SSHD.
Hver er munurinn á SSD, HDD og SSHD?

  • HDD (Hard Disk Drive) er harður diskur með snúningsskífu.  Þeir eru hægari í vinnslu og viðkvæmari en bjóða upp á mikla stærð.
  • SSD (Solid State Drive) eru í raun ekki harðir diskar heldur flash-minni.  Slíkir diskar eru margfalt hraðari og gera tölvuna því liprari og skemmtilegri í notkun. Hins vegar eru þeir einnig dýrari og oft hafa þeir takmarkað geymslurými. SSD diskar hafa gífurleg áhrif á notendaupplifun, þar sem þeir hraða flestum aðgerðum.
  • SSHD diskar, sem eru tvinndiskar (hybrid), þ.e. eru í grunninn hefðbundnir harðir diskar, en þó með flash minni sem heldur utan um mest notuðu gögnin.  Slíkir diskar brúa því að einhverju leyti bilið milli HDD og SSD, bjóða upp á stærðina sem HDD býður og smá hraðaaukningu með flash-minninu.

Vinnsluminni (e. RAM)

Vinnsluminni tölvunnar segir til um hversu mikið magn af upplýsingum tölvan getur haldið utan um, án þess að þurfa að sækja þær af disk. Þegar vinnsluminni fyllist, þá skrifar tölvan upplýsingarnar á harðan disk. Vinnsluminnið er töluvert hraðara heldur en diskur tölvunnar og því er ráðlegt að stærð vinnsluminnis sé í samræmi við það sem tölvan á að vera notuð í.  Ef notandi vinnur með þung forrit, er almennt með mörg forrit opin í einu, eða mjög marga glugga í vafra, þá þarf hann talsvert vinnsluminni.

Við kaup á tölvu er það magn vinnsluminnis sem skiptir máli, ekki hraði þess. MHz-tölur vinnsluminnis er eitthvað sem þarf ekki að hafa í huga við kaup á fartölvu, þar sem hraðamunurinn er mögulega mælanlegur en ekki sjáanlegur.

Skjákort

Skjákort/skjástýring fartölvu hefur áhrif á grafíska vinnslugetu tölvunnar.  Skjákortið er því helst mikilvægt fyrir þá sem eru í þungri grafískri vinnslu, s.s. þrívíddarteikningu eða tölvuleikjum.

Erfitt er að sjá út frá nöfnunum á skjástýringunum hversu öflugar þær eru og því er helst hægt að benda á raunverulegar prófanir á þeim, svo sem hjá NotebookCheck.net.

Annað sem er gott að hafa í huga

Hvað kosta aukahlutirnir?

Aukahlutir og íhlutir eru misdýrir eftir framleiðendum. Aukalutir sem skemmast hratt eða eiga á hættu að týnast, eins og hleðslutæki og batterí, eru eitthvað sem þú þarft mögulega að skipta út á því tímabili sem þú notar tölvuna. Það er því gott að kanna verð á algengum aukahlutum.

Snertiskjár?

Sumar nýjar fartölvur eru með snertiskjá, sem sumum notendum gæti þótt þægilegt. Snertiskjáinn er hægt að nota til þess að teikna, skrolla, stækka og margt fleira og sumar tölvur er hægt að brjóta á bak aftur, þannig að þær líta út eins og spjaldtölvur. Þetta gæti verið ákjósanlegur eiginleiki fyrir suma, en aukakostnaður fyrir aðra.

Ábyrgð og trygging

Ýmislegt getur bilað í tölvum og því gott að hafa sem lengsta og sveigjanlega ábyrgð. Margar verslanir og framleiðendur bjóða líka upp á tölvutryggingu sem gildir fyrir ýmsan skaða sem þú sjálf(ur) veldur tölvunni.

Prófaðu lyklaborðið

Lyklaborðið þarf að henta þörfum þínum.  Ef þú ætlar að skrifa mikið á tölvuna, t.d. heilmiklar háskólaritgerðir, löng lífstílsblogg eða novellu um skiptiárið þitt á Ítalíu, þá þarftu lyklaborð sem gefur vel eftir (þar sem takkarnir fara a.m.k. 1-2 mm niður, þar sem gott pláss er á milli lyklanna og uppsetningin hentar þér. Prófaðu líka músarborðið (e. trackpad).  Það er að einhverju leyti stillanlegt, en þarf að henta þér.

Rafhlöðuending

Hver er rafhlöðuending tölvunnar? Ætlarðu að vera mikið með hana í sambandi á sama stað?  Þá þarf rafhlaðan ekki að vera öflug (og tölvan þar með léttari). Eða ætlarðu að ferðast mikið og það skiptir þig meira máli að geta klárað helst hálfa seríu af Game of Thrones á meðan þú ferðast með Síberíuhraðlestinni? Ekki treysta alltaf framleiðandanum, heldur kannaðu batterílífið hjá þriðja aðila (t.d. síðum á netinu þar sem notendur skiptast á dómum).

Hátalarar

Hversu öflugir eru hátalararnir? Ef þú ert týpan sem ert með risastórt stereókerfi heima hjá þér og ætlar þér að tengja tölvuna við það, þá skipta hátalararnir kannski litlu máli nema rétt til að skæpa ömmu og afa heima á Langanesi. En ef þú ætlar að hlusta á tónlist beint úr tölvunni reglulega þá skaltu kaupa tölvu sem hljómar ekki eins og skókassi.

Notaðu samanburðarsíður til þess að velja réttu tölvuna

Til eru margar erlendar samanburðarsíður sem dæma eiginleika hug- og vélbúnaðar og bera saman bestu og verstu frammistöðuna. Á íslandi eru líka tvær síður sem hjálpa þér að finna réttu tölvuna um leið og þú ert búinn að finna hvaða þarfir þú hefur.

Vaktin.is

Vaktin sýnir yfirlit yfir ýmsa íhluti, t.d. harða diska og vinnsluminni, og verðsamanburð eftir verslunum.

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar