Hvernig fara íbúðarkaup fram?

Það má skipta kaupferlinu í fjögur þrep, en þau eru:

 • greiðslumat,
 • kauptilboð,
 • umsókn um lán,
 • kaup.

Fyrsta skref er að fara í greiðslumat

Það er gert í gegnum viðskiptabanka kaupanda. Greiðslumatið snýst um að meta hversu dýra íbúð einstaklingur hefur ráð á að kaupa á lánum. Ýmis skjöl þurfa að fylgja umsókninni, en þau eru:

 • afrit af síðustu skattskýrslu, staðfesta af skattayfirvöldum eða löggiltum endurskoðanda;
 • afrit af launaseðlum síðustu þriggja mánaða;
 • upplýsingar um aðra tekjustofna og eignir, til dæmis námslán, innistæður á bankareikningum og hlutabréfaeign;
 • upplýsingar um fasteignir í eigu kaupanda eða aðrar eignir sem hægt er að selja eða nota sem tryggingu eða veð;
 • afrit af síðustu greiðsluseðlum allra útistandandi lána, þar með talin bílalán, stöðu kreditkorta og aðrar mánaðarlegar afborganir.

Næsta skref er að gera kauptilboð

Haft er samband við fasteignasala og rætt um hversu mikils virði fasteignin er í raun og veru. Fasteignasalinn aðstoðar svo við að gera eigandanum kauptilboð. Gott er að hafa í huga að kauptilboð eru bindandi.

Að sækja um íbúðarlán

Þegar tilboð hefur verið samþykkt af eiganda, þarf að fara til Íbúðalánasjóðs eða banka og sækja um íbúðarlán. Þegar sótt er um lán þarf að skila inn ákveðnum pappírum, t.d. skriflegu kauptilboði og greiðslumati. Ef umsókn er samþykkt mun fasteignasalinn hafa samband til að undirrita skjölin. Síðan er gengið er frá greiðslum og íbúðin er afhent eftir samkomulagi.

Á síðunni Ísland.is má finna gagnlegan kafla um húsnæðislán og fasteignaviðskipti almennt.

 

 • Var efnið hjálplegt?
 •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar