Nú í miðjum heimsfaraldri höfum við þurft að læra að sættast við nýjar sóttvarnarvenjur. Meðal annars höfum við þurft að fylgjast sérstaklega vel með hreinlæti og passa upp á að viðhalda tveggja metra fjarlægð á milli hvors annars. En þar sem ekki er hægt að tryggja fjarlægð milli nemenda hafa flestallir framhalds- og háskólar tekið upp fjarnám, annaðhvort fullt eða að hluta til.

Þó það hljómi kannski vel að geta sinnt skólanum heima hjá sér, jafnvel á náttfötunum eða uppi í rúmi þá er það hægara sagt en gert að ná árangri í fjarnámi. Mjög auðvelt er að fresta allri vinnunni og leyfa henni að safnast upp.

En hvað getur þú gert til að koma í veg fyrir frestun og hvernig getur þú haldið aga í fjarnáminu?

Hér eru nokkur ráð sem þú getur stutt þig við.

Komdu fram við námið eins og alla aðra vinnu

Þótt það sé freistandi að sofa bara út, vakna fimm mínútum áður en fjarkennslan hefst og vinna á sófanum í náttfötum þá getur það haft slæm áhrif á frammistöðu þína í náminu, þar sem heilinn þinn tengir það ekki sem vinnu. Vaknaðu frekar snemma, burstaðu tennurnar, klæddu þig og borðaðu morgunmat áður en þú byrjar að læra.

Haltu þig við stundatöflu

Skólinn hefur líklegast útvegað þér stundatöflu í byrjun annar sem á að miðast við hvernig dagurinn myndi líta út ef þú værir að mæta í skólann. Þú getur notast við hana og þannig tekið frá tíma fyrir hvern áfanga/pásur o.s.frv.

Vertu nálægt glugga

Það getur verið ósköp niðurdrepandi að vera lokaður inni í sama dimma herberginu allan daginn. Það að sjá út getur svo sannarlega auðveldað daginn.

Hreyfðu þig

Stattu upp frá borðinu af og til og teygðu þig eða farðu út í stuttan göngutúr. Það getur hresst þig við og hvatt þig til að halda áfram.

Lokaðu á samfélagsmiðla

Þú getur hlaðið niður forritum á tölvuna og símann sem loka á samfélagsmiðla í ákveðinn tíma, til dæmis Cold Turkey og Freedom. Þetta kemur í veg fyrir að þú hangir í símanum allan daginn

Láttu fjölskylduna vita að þú sért í fjarnámi

Það að reyna að læra heima þegar þú býrð með öðrum getur raskað athygli þinni. Biddu þá sem búa með þér að hafa hljótt og reyna að trufla þig ekki á meðan þú ert að læra.

Höf: Ingveldur Samúelsdóttir

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar