Hvort sem við erum að flytja fyrirlestur, ræðu, leikrit eða sögu er mikilvægt að kunna að koma fyrir sig orði og koma máli sínu frá sér á skýran, áhrifaríkan og öruggan hátt. Það getur komið að gagni þegar við tjáum okkur í kennslustundum eða á fundum, förum í atvinnuviðtal eða kynnum hugmyndir og skoðanir okkar í fjölmiðlum eða við vini og vandamenn!

Að takast á við stressið

Það er fullkomlega mannlegt og eðlilegt að upplifa stress þegar maður þarf að koma fram eða fara í mikilvægt viðtal.

Það mikilvægasta er að gera sér grein fyrir því; mikla stressið ekki fyrir sér, heldur leiða það hjá sér og nota það til að gefa sér kraft og einbeitingu þegar til kastanna kemur. Ekki hugsa of mikið um hvort þú sért stressuð/stressaður, hugsaðu bara um það sem þú ert að segja og haltu áfram.

Algeng mistök

1. Að hanga fram á pontuna eða ríghalda í hana – Ef þú vilt hafa hendurnar á pontunni eiga þær helst að hvíla lauslega við brúnina nær þér.

2. Að standa með hendur í vösum, fyrir aftan bak eða í skauti sér – Þú getur t.d. haft þær niður með síðum eða í pontunni.

3. Óeðlilegt handapat – Allar handahreyfingar þurfa að vera meðvitaðar, hóflegar og í samhengi við það sem verið er að segja.

4. Benda stöðugt á skjáinn eða snúa sér að glærunum í fyrirlestri – Horfa skala á áheyrendur því þeir eru aðalatriðið.

5. Að forðast salinn, muldra í kjöltu sína og lesa af blaði allan tímann – Þú verður að tala við salinn og ná sambandi við hann t.d. með því að horfa reglulega á fjölbreytta staði/fólk í salnum.

6. Að tala í mónotón eða einum, drafandi, litlausum tón allan tímann – Þú verður að glæða efnið lífi, veita því þær áherslur sem innihaldið kallar á og lifa þig inn í flutninginn.

7. Að forðast textann; hlaupa yfir setningar, orð og atkvæði til að komast yfir verkefnið sem fyrst – Þú verður að leyfa orðunum og innihaldinu að njóta sín og öll orð verða að komast til skila.

8. Að afsaka sig yfir því hvað maður er illa undirbúinn, efnið ómerkilegt o.s.frv. – Oftast er efnið áhugaverðara en maður gerir ráð fyrir í stressi, það gerir bara illt verra að salurinn sé meðvitaður um óöryggi ræðumannsins.

Almenn heilræði

Sjálfsöryggi er lykilatriðið – Hvort sem þú ert stressaður, auðmjúkur eða hrokafullur verðurðu bara að setja þig í hlutverk þess sem nýtur athyglinnar og er sjálfsöryggið uppmálað.

Líkamstjáning og leikrænir tilburðir eru frábær viðbót – Líkamsbeiting og innlifun geta gefið flutningnum mjög mikið ef það er meðvitað og eðlilegt, í samhengi við það sem verið er að segja.

Þú ert að tala við fólk, ekki lesa texta – Glærur, punktar og texti eru aðstoð við þann sem talar en ekki eitthvað sem á að lesa fyrir fólkið.

Settu kraft í röddina – Það þýðir ekki endilega að tala hátt, heldur að hvort sem þú ert að hvísla eða öskra gefirðu röddina alla í það.

Vertu þú sjálfur – Lærðu af öðrum en finndu þinn eigin stíl og karakter sem þér líður vel með. Á endanum ert þú alltaf þinn eigin besti ræðumaður.

Sjálfsöryggi er lykilatriðið – Hvort sem þú ert stressaður, auðmjúkur eða hrokafullur verðurðu bara að setja þig í hlutverk þess sem nýtur athyglinnar og er sjálfsöryggið uppmálað.

 

 

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar