Hvað er skiptinám?
Skiptinám er það kallað þegar hluti námsins er tekinn við skóla erlendis. Sérstakir samningar eru á milli íslenskra og erlendra skóla um nemaskipti. Nemar í svona námi kallast í daglegu tali skiptinemar. Þegar nemendur fara í skiptinám velja þeir sér land til að dvelja í, ýmist í 3-12 mánuði í senn. Þar ganga þeir í skóla sem er sambærilegur menntaskólum eða háskólum á Íslandi.
Af hverju að fara í skiptinám?
Nemendur sem hafa farið í skiptinám mæla nær undantekningarlaust með því að fólk geri slíkt hið sama. Skiptinám er frábær leið til að læra nýtt, erlent tungumál eða ná betri tökum á tungumáli sem maður kann fyrir. Í skiptinámi kynnast einstaklingar líka nýrri menningu og fleira fólki. Þá er skiptinám gott tækifæri til að sjá meira af heiminum og ferðast, en það eflir einnig sjálfstraust og sjálfsbjargarviðleitni.
Staðir og styrkir
- AFS skiptinemasamtökin á Íslandi senda fólk út í skiptinám og einblínir þar sérstaklega á fólk á aldrinum 15 – 18 ára. AFS býður upp á skiptinám í 6 heimsálfum. Á heimasíðu samtakanna má sjá lista yfir öll þau lönd sem standa til boða hjá samtökunum. AFS hefur veitt styrki til framúrskarandi nemenda og efnaminni fjölskyldna. Best er að hafa samband við samtökin, senda fyrirspurn á netinu eða hringja.
- Mundo – skiptinám. Mundo ferðaskrifstofa bíður upp á skiptinám fyrir ungmenni í Bandaríkjunum, Þýskalandi, Frakklandi og á Spáni.
- Háskóli Íslands og Háskóli Reykjavíkur senda fólk sem stundar nám við háskólann í skiptinám erlendis. Ýmsir styrkir eru í boði fyrir fólk sem fer í gegnum háskólanna, þar má meðal annars nefna Erasmus+, Nordplus, Watanbe og fleira.
- Hér má nálgast upplýsingar um ólíka námsstyrki sem völ er á.
Hvert er hægt að fara í skiptinám?
Í raun eru svo margir staðir þar sem hægt er að fara í skiptinám, að það væri líklega auðveldara að telja upp þá staði þar sem það er ekki hægt. Ef að áhugi þinn á skiptinámi takmarkast við ákveðið land/lönd, þá mælum við með því að hafa samband við ólíka staði og athuga hvort að einhver þeirra bjóði upp á skiptinám í því landi sem þú óskar þér að fara til.
Hvað kostar að fara í skiptinám?
Það er afar ólíkt eftir tilvikum hve mikið það kostar að fara í skiptinám. Oft er hægt að fá styrki fyrir náminu en þó má búast við því að þurfa að leggja út peninga sjálfur ferðinni. Við mælum með því að tala vel um fjármálin við þá aðila sem þú vilt fara í gegnum, áður en ferðinni er heitið út.
á áttavitanum má einnig nálgast upplýsingar um sumarvinnu og annað nám erlendis.
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?