Hvað eru verkfræði- og raunvísindagreinar?
Eins og nafnið bendir til eru verkfræði- og raunvísindagreinar fremur ólík fög sem eiga það sameiginlegt að fást við vísindi og náttúrulögmál. Sem dæmi um nám í greinunum eru eðlis- og efnafræði, jarðfræði, verkfræði, líffræði og landfræði. Oft er tölvunarfræði flokkuð með verkfræði- og raunvísindagreinum.
Hvaða skólar kenna verkfræði- og raunvísindagreinar?
- Háskóli Íslands kennir fjölda greina í grunn- og framhaldsnámi í 6 deildum. Upplýsingar um námsleiðir má finna á heimasíðu verkfræði- og raunvísindasviðs.
- Háskólinn í Reykjavík býður upp á nám í tækni-og verkfræðideild og tölvunardeild.
- Í Háskólanum á Akureyri er viðskipta- og raunvísindasvið og þar eru nokkrar námsleiðir í boði.
Við hvað starfar fólk með verkfræði og raunvísindamenntun?
Verkfræði- og raunvísindamenntað fólk starfar í ýmsum geirum; við tækni og tölvur, byggingaframkvæmdir og gatnagerð, vísindi, kennslu, bankastarfssemi, hönnun, rannsóknir . . . og svona mætti lengi telja. Hér að neðan er stuttlega gerð grein fyrir helstu greinum verkfræði og raunvísinda.
Iðnaðarverkfræði
Iðnaðarverkfræðingar veljast gjarnan í ábyrgðarstörf. Þeir starfa sem sérfræðingar og stjórnendur í iðnfyrirtækjum, fjármála- og ráðgjafafyrirtækjum.
Vélaverkfræði
Vélaverkfræðingar vinna gjarnan á verkfræðistofum, til dæmis við hönnun jarðgufu- og vatnsaflsvirkjana. Einnig starfa þeir hjá framleiðslufyrirtækjum, flutninga- og hugbúnaðarfyrirtækjum. Þeir starfa einnig við fjármálastofnanir; banka og verðbréfafyrirtæki sem stjórnendur og sérfræðingar, til dæmis við gjaldeyris- og áhættustýringu. Véla- og iðnaðarverkfræðingar eru eftirsóttir starfskraftar í atvinnulífinu, til dæmis hjá fjármála-, hátækni- og ráðgjafarfyrirtækjum.
Jarðfræði og jarðeðlisfræði
Jarðvísindamenn starfa við rannsóknir hjá ýmsum opinberum stofnunum, t.d. Háskóla Íslands, Orkuveitunni og Náttúrufræðistofnun. Einnig vinna þeir við ýmis hagnýt verkefni á vegum sveitarfélaga og einkafyrirtækja og hjá ráðgefandi verkfræðistofum.
Landfræði
Í landfræði eru unnið með samspil manns og náttúru, náttúrulandfræði, mannvistarlandfræði, kortagerð, greiningu lands og landupplýsingar. Störf í landfræði eru mjög fjölbreytt, bæði fræðileg og praktísk. Til að mynda við rannsóknir og mælingar eða innan ferðaþjónustunnar.
Lífefna- og sameindalíffræði
Lífefna og sameindalíffræðingar starfa við rannsóknir á örverum og frumum, til dæmis byggingu próteina, erfðamengjafræði og líftæknilega örverufræði. Þeirra svið byggist mikið á eðlisfræði, efnafræði og stærðfræði. Störf sameindalíffræðinga eru oftar en ekki unnin á rannsóknarstofum.
Efnafræði
Efnafræðingar starfa mikið í hátækniiðnaði og ýmsum öðrum iðnaðarstörfum. Þeir starfa einnig við rannsóknir á vettvangi og við eftirlit hjá opinberum aðilum. Einnig starfa þeir mikið við kennslu í raungreinum.
Umhverfis- og byggingaverkfræði
Meðal þess sem fólk með menntun í umhverfis- og byggingaverkfræði starfar við er mannvirkjahönnun, vatna- og straumfræði, burðarþolsfræði, jarðtækni, umhverfisverkfræði, samgönguverkfræði, framkvæmdafræði, steinsteypu-, stál- og trévirki, fráveitu- og sorphirðumál, jarðskjálftaverkfræði, vega- og flugbrautagerð og skipulags- og samgöngumál.
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?