Hvernig getur maður stutt vin í sorg?

Þegar maður gengur í gegnum sorgarferli eru vinir það besta sem maður á. Stuðningur þeirra og rétt viðbrögð geta skipt sköpum til að vinna sig í gegnum sorgarferlið.

Ef vinur manns gengur í gegnum sorg er gott að hafa nokkur atriði í huga;

  • Vera þolinmóður. Það er engin ein rétt leið við að syrgja. Það getur tekið fólk mislangan tíma og hver gerir það á sinn hátt.
  • Tilfinningasveiflur eru eðlilegar. Í sorg er eðlilegt að manneskjan upplifi reiði, samviskubit, ótta, þunglyndi og hvaða tilfinningar sem kunna að skjóta upp kollinum. Sorgarferlið getur oft verið mikill tilfinningarússíbani og það er eðlilegt að sýna óvænt og furðuleg tilfinningaviðbrögð.
  • Veita hjálparhönd. Sá sem syrgir upplifir sig oft mjög einan og óstuddan. Þótt maður hafi ekki öll réttu svörin er mikilvægt að rétta út hjálparhönd að fyrrabragði. Oft getur góður hlustandi og opinn faðmur verið allt sem sá sem syrgir þarf á að halda.
  • Viðurkenna það sem kom fyrir. Ef verið er að syrgja látna manneskju, á maður ekki að forðast umræðuefnið. Það er betra að horfast í augu við orðinn hlut en að fara í kringum umræðuefnið og líta undan.
  • Vinurinn verður að vita að manni standi ekki á sama. Mikilvægt er að vera opinn og viljugur ef sá sem syrgir vill eiga í samskiptum við mann.
  • Bjóða fram aðstoð. Í sorgarferli getur verið ótrúlega erfitt að gera einföldustu hluti, eins og að vaska upp eða keyra bíl. Sá sem syrgir verður þakklátur að finna að aðstoð sé í boði, þótt hann þiggi hana ekki endilega.
  • Ef um er að ræða dauðsfall, þá er sorginni síður en svo lokið við jarðarförina. Maður þarf að muna að sorgarferlið varir í langan tíma þar á eftir, alveg áreiðanlega í meira en ár. Því er mikilvægt að bjóða ekki bara fram aðstoð fyrstu dagana.
  • Minna þann sem syrgir á að sinna sjálfum sér. Varast skal þó að hafa vitið fyrir honum. Það gæti hjálpað að reyna að örva hann til þess að tala, reyna að fá hann í göngutúra og borða eitthvað létt saman. Fólk í sorg gleymir t.d. oft að borða.
  • Taka því ef vinurinn tekur einhverjum breytingum. Stundum geta áföll, sorg og missir, valdið miklum innri breytingum. Fólk getur jafnvel breytt um lífsstíl eða tileinkað sér nýja hugmyndafræði. Margir hætta að sinna ákveðnum áhugamálum eða finna sér ný. Séu breytingarnar jákvæðar er það merki um að reynslan hafi orðið til þess að manneskjan hafi þroskast og þá er gott að styðja fólk í því, þó svo maður sakni kannski fyrri tíma.
  • Hafa skal augun opin fyrir þunglyndiseinkennum hjá þeim sem syrgir. Geri alvarleg þunglyndiseinkenni vart við sig, er nauðsynlegt að bregðast við því. Þunglyndi getur verið lífshættulegt og því ber alltaf að taka alvarlega. Sama á við ef manneskjan fer að temja sér óhollan lífsstíl, þá er best að reyna eftir megni að vísa henni aftur á rétta braut.
  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar