Hvar má tjalda?

Í byggð er í lagi að tjalda á óræktuðu landi yfir eina nótt, sé tjaldsvæði ekki nálægt. Að sjálfsögðu er óheimilt að tjalda á landi þar sem landeigandi hefur bannað aðgang að svæðinu með merkingum. Vilji maður hinsvegar tjalda nærri húsi ber manni að fá leyfi hjá húseiganda. Athugið að þá er miðað við hefðbundin viðlegutjöld.

Í óbyggðum við alfaraleið, hvort sem er á þjóðlendu eða eignarlandi er heimilt að tjalda hefðbundnu viðlegutjaldi. Sé það utan alfaraleiðar er heimilt að tjalda nema annað sé tekið fram í sérreglum um svæðið.

  • Alltaf þarf að biðja um leyfi til að tjalda ef tjöldin eru fleiri en þrjú, eða ef tjalda skal lengur en til þriggja nátta.
  • Á ræktuðu landi þarf ávallt að fá leyfi hjá landeiganda. Landeigendur geta bannað ferðamönnum að tjalda á viðkvæmum svæðum, þar sem hætta er á jarðvegsskemmdum.
  • Ef landeigendur reka tjaldsvæði á landi sínu hafa þeir heimild til að rukka ferðamenn fyrir þá þjónustu.

Mikilvægt er að muna að ganga alltaf vel um landið. Fjarlægja allt rusl og skilja ávallt við tjaldsvæðið í því ástandi sem maður kom að því í. Á það bæði við þegar tjaldað er á viðurkenndum tjaldsvæðum sem og í ósnertri náttúrunni.

Athugið að þessar reglur gilda einungis um tjöld, reglur varðandi húsbíla, fellihýsi og samskonar græjur eru töluvert strangari.

Til að mynda var lögunum breytt árið 2015 á þá vegu að nú er óheimilt að hafa næturgistingu í tjaldvögnum, fellihýsum, hjólhýsum, húsbílum og öðrum sambærilegum búnaði utan skipulagðra tjaldstæða og þéttbýlis nema leyfi landeiganda eða rétthafa lands komi þar til.

Á vefnum Tjalda.is má finna gott leitarkort fyrir tjaldsvæði eftir landshlutum og allar frekari upplýsingar. Einnig má finna upplýsingar um hvar má tjalda á vef Umhverfisstofnunar.

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar