Um hvað er verið að kjósa?

Það er kosið um hverjir fái þau 63 sæti sem eru á Alþingi. Alþingi fer með löggjafavald á Íslandi en það þýðir að það er eini aðilinn sem má setja lög og breyta þeim. Á Íslandi er þingræði og fulltrúalýðræði. Meirihluti Alþingis (32 þingmenn eða fleiri) gerir með sér samning um að mynda ríkisstjórn. Ríkisstjórnarflokkarnir velja ráðherra sem mynda ríkisstjórn landsins. Ríkisstjórnin fer með framkvæmdarvaldið og ber að framkvæma vilja meirihluta Alþingis.

Forseti lýðveldisins veitir ákveðnum stjórnmálaflokk umboð til ríkisstjórnarmyndunnar eftir kosningar. Það þýðir að hann velur flokk til þess að hefja samningaviðræður við aðra flokka um hverjir verða í ríkisstjórn. Oftast velur forsetinn þann flokk sem fær flest atkvæði í kosningunum. Ef sitjandi ríkisstjórn missir meirahluta á þingi (fær færri en 32 sæti) er líklegt að sá flokkur stjórnarandstöðunnar sem fær flest atkvæði fái umboðið.

Hverjir eru í framboði?

Í Alþingiskosningum bjóða stjórnmálaflokkar fram lista eftir kjördæmum. Hvernig valið er á listana veltur alfarið á flokkunum sjálfum. Hverju framboði er úthlutaður bókstafur sem merkt er við á kjörseðli. Hér má sjá lista yfir alla þá flokka sem eru í framboði.

Af hverju geta ekki allir bara unnið saman?

Áherslur sumra flokka eru einfaldlega of ólíkar til þess að það sé grundvöllur fyrir samstarfi. T.d. er ólíklegt að tveir flokkar geti unnið saman ef annar vill virkja ár á hálendinu en hinn vill það alls ekki. Hefð hefur verið fyrir því að tala um vinstri og hægri í stjórnmálum til að skýra muninn á milli flokka, þó margir vilji meina að sú skipting sé að mörgu leyti gölluð.

Má ég kjósa?

Ef þú ert íslenskur ríkisborgarari og orðinn 18 ára ertu með kosningarétt og mátt kjósa í alþingiskosningum. Þá er talað um að þú sért á kjörskrá en það er einfaldlega listi yfir þá sem mega kjósa.

Hvar kýs ég?

Það er kosið á kjörstað. Hvar þinn kjörstaður er fer eftir því hvar þú býrð. Landinu er skipt upp í kjördæmi og í hverju kjördæmi eru kjörstaðir sem rúma eina eða fleiri kjördeildir. Í hvaða kjördeild þú kýst veltur á því hvar þú ert með lögheimili. Hér getur þú slegið inn kennitölunni þinni og séð nákvæmlega hvar þú átt að kjósa.

Hvernig kýs ég?

Þú mætir á kjörstað, finnur þína kjördeild, framvísar skilríkjum, færð afhendan kjörseðil og ferð inn í kjörklefa. Inni í kjörklefa er blýantur sem þú notar til þess að setja X fyrir framan bókstaf þess lista sem þú ætlar að kjósa. Þegar þú ert búinn að merkja við flokk brýturðu seðilinn saman þannig að letrið snúi inn og setur hann ofan í kjörkassann.

Get ég breytt listanum sem ég kýs?

Þú getur breytt röð listans sem þú kýst með því að setja 1 fyrir framan þann sem þú vilt hafa í fyrsta sæti, 2 fyrir framan annað sæti og svo framvegis. Einnig getur þú strikað út frambjóðendur á listanum. Þetta getur haft áhrif en það lítur ákveðnum reglum.

Hvenær er kjörseðill talinn ógildur?

Ógildir seðlar eru þeir seðlar sem eru misvísandi merktir, t.d. ef sett er X við fleiri en einn lista, eða strikað er yfir frambjóðendur á öðrum listum en þeim sem þú settir X við.
Einnig er hægt að skila inn auðu. Þá er ekki merkt við neitt á kjörseðlinum. Auðir seðlar eru oft túlkaðir sem óánægja kjósenda með alla þá lista sem í boði eru.

Hvað ef ég geri mistök?

Ef þú gerir misstök eða þér snýst hugur eftir að þú ert búinn að merkja við seðilinn þá áttu rétt á að fá nýjan kjörseðil. Þá ferðu til kjörstjórnar – það er fólkið sem lét þig hafa kjörseðilinn – afhendir þeim kjörseðilinn þinn og biður um nýjan.

Hvað ef ég þarf aðstoð við að kjósa?

Ef þú getur ekki merkt sjálfur við kjörseðilinn velur þú einn aðila úr kjörstjórn til þess að fara með þér inn í kjörklefa og merkja við hann fyrir þig. Sá aðili er bundinn þagnarskyldu og má því ekki segja frá því sem fer ykkar á milli. Nánar um reglur um aðstoð má finna hér.

Hvað ef ég kemst ekki?

Þú getur kosið þó þú komist ekki á kjörstað á kjördegi. Það er kallað að kjósa utan kjörfundar. Hvernig það er gert er mismunandi eftir aðstæðum. Nánari upplýsingar um það má finna hér. Athugið að kosning utan kjörfundar er hafin.

Þarf ég að kjósa?

Engum er skilt að taka þátt í kosningum. Hinsvegar hefur það mikil áhrif á daglegt líf þitt og annarra hverjir sitja á Alþingi og mynda ríkisstjórn. Þar eru teknar ákvarðanir um innviði samfélagsins líkt og fjárveitingar til spítala, skóla, vegagerðar, lögreglu og fjölda annarra stofnanna sem við reiðum okkur á, meðvitað og ómeðvitað.

Nánar má lesa um kosningarnar á egkys.is.

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar