Fyrir kosningar þurfa stjórnmálaflokkar/samtök að velja frambjóðendur sína í hverju kjördæmi landsins og ákveða í hvaða röð þeir eru boðnir fram á framboðslistum þeirra.

Nokkrar ólíkar aðferðir eru til þess og geta verið ólíkar milli flokka, kosninga og kjördæma.

Uppstillinganefndir eru nefndir skipaðar trúnaðarmönnum flokks, sem raða á framboðslista fyrir hann í kosningum. Kjörfundir eru sérstakir fundir sem flokkur boðar til, þar sem flokksmenn eða fulltrúar þeirra kjósa á framboðslista. Við póstkosningar sendir flokkurinn atkvæðaseðla í bréfpósti til félagsmanna, sem fylla þá út og senda til baka. Kjörfundir og póstkosningar ganga oft undir heitinu forval, til aðgreiningar frá prófkjörum.

Hvað eru prófkjör?

Prófkjör eru almennar kosningar sem flokkur boðar til um röðun á framboðslista hans í hverju kjördæmi fyrir sig og taka yfirleitt fleiri þátt í slíkum kosningum en í forvali.

Í lokuðum prófkjörum mega bara meðlimir flokksins kjósa en í opnum prófkjörum getur hver sem er kosið. Flest prófkjör á Íslandi eru hálfopin; þ.e. formlega séð eiga bara meðlimir flokkanna að kjósa en skilyrðin og eftirlitið með því eru yfirleitt ekki ströng, t.d. nægir oft að lýsa formlega yfir stuðningi við flokkinn.

Fyrstu prófkjörin á Íslandi voru haldin af Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum árið 1971 og fleiri flokkar tóku það upp þegar leið á áttunda og níunda áratug 20. aldar.

Hvernig fara prófkjör fram?

Þegar prófkjör eða forvöl fara fram bjóða frambjóðendur yfirleitt fram í ákveðið sæti, stundum fleiri en eitt t.d. í „2-4. sætið“. Kosningin fer síðan þannig fram að kjósendur raða frambjóðendum í 1. sætið, 2. sæti o.s.frv á kjörseðli sínum.

Misjafnt er um hversu mörg sæti er verið að kjósa (oftast 10-20) en yfirleitt þurfa kjósendur ekki að merkja við þau öll. Prófkjör fara oftast fram á kjörstöðum á vegum viðkomandi flokks en prófkjör hafa einnig verið haldin í gegnum netið.

Úrslitin fara þannig fram að sá frambjóðandi sem hlýtur flest atkvæði í 1. sætið nær því sæti. Þá er sá frambjóðandi fjarlægður úr talningunni og sá frambjóðandi sem eftir stendur og hefur hlotið flest atkvæði í 1. og 2. sætið samanlagt nær 2. sætinu. Sá sem fær flest atkvæði fyrir utan þá tvo frambjóðendur í 1.-3. sætið fær síðan 3. sætið og svo framvegis.

Niðurstöður þessara kosninga eru þó ekki alltaf bindandi og stundum er úrslitunum breytt eftir á, t.d. til þess að stuðla að jafnari kynjahlutföllum á listanum.

Sjá einnig:

 

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar