Er hægt að breyta áhugamálinu sínu í atvinnu?

Flest áhugamál tengjast atvinnulífinu með einum eða öðrum hætti, hvort sem það er gamaldags fatnaður eða tölvuleikir, og því er allt eins möguleiki á að fá borgað fyrir að sinna áhugamáli sínu frá degi til dags. Gott er að setjast niður með blað og penna og lista upp þá staði sem maður hefur gaman af að vera á, hluti sem maður hefur sérstaka þekkingu á og ástríðu fyrir. Hvar gæti verið mest spennandi að vinna? Eða hefur maður burði til að fara sjálfur út í rekstur?

Hvenær er tímabært að breyta áhugamálinu í atvinnu?

Ef núverandi starf gerir fólk óhamingjusamt er það ávallt næg ástæða til að endurskoða starfsframann. Ef hæfileikar og áhugi haldast hönd í hönd má oft breyta áhugamálinu í vinnu. Óhamingja í starfi er hættuleg til lengdar og betra er að prófa eitthvað nýtt en að daga uppi í vinnu sem maður þolir ekki. Fólk endist frekar í starfi sem það hefur ánægju af – og það leggur sig meira fram. Mikilvægt er þó að vera með raunhæfar áætlanir áður en maður segir starfi sínu lausu.

Hvar skal byrja?

Alls ekki er ráðlegt að hætta í vinnunni sinni og fara síðan út að leita að draumastarfinu. Betra er að leita uppi draumastarfið og landa því ÁÐUR en maður hættir í gömlu vinnunni. Þetta getur verið langtíma verk, en mikilvægt er að gefast ekki upp. Stundum krefst það þess að fólk fari aftur í nám, taki að sér illa launaðar stöður eða vinni hreinlega á tveimur stöðum. Að gera áhugamálið að starfi er stórt skref – en til langs tíma litið hlýtur það að vera farsælla.

Styrkir, sparnaður og vinna

Fjöldinn allur af fjárhagslegum stuðningi stendur fólki til boða. Hægt er að sækja um ýmsa styrki og aðstoð. Eins má draga úr kostnaði á meðan rekstur er byggður upp, til dæmis með því að vinna í hlutastarfi. Auðveldlega má finna ýmsar leiðir til að lifa spart og draga saman í einkalífinu, á meðan reksturinn eða fyrirtækið er að fara af stað. Ef einlægur áhugi, dugnaður og skynsemi eru fyrir hendi, og þess vandlega gætt að missa aldrei sjónar af markmiðunum, má vel búast við því að draumurinn rætist einn daginn.

Á Áttavitanum má finna ýmsa styrki og leiðbeiningar um stofnun fyrirtækja og rekstur.

Nokkur góð ráð til að nálgast draumastarfið

  • Best er að setja sig í samband við sérfræðinga og fá þá til að meta hvort maður hafi það sem til þarf. Þótt fólk hafi áhugann er ekki víst að það búi yfir því sem þarf til að starfa við áhugamálið. Sérfræðingar geta líka bent á nám, námskeið og annað til að þróa hæfileikana og búa fólk undir starfsvettvanginn.
  • Að prófa áður en maður ákveður. Sniðugt gæti verið að koma sér í starfsreynslu og sjá hvort maður njóti þess að vinna við áhugamálið. Mögulega er áhuginn ekki jafnmikill og maður hélt í fyrstu.
  • Ef áhugamálið býður upp á mögulegan fyrirtækjarekstur er gott að setja sig í samband við þá sem hafa reynslu af þessari tegund viðskipta. Traust og heiðarleg ráðgjöf getur gefið upplýsingar um samstarfsaðila, námskeið, styrki, lán og annað sem til þarf til að fara út í rekstur.

Hverjir eru kostir og gallar við að starfa við áhugamálið sitt?

Kosturinn er augljóslega sá að fólk fær að vinna við eitthvað sem því þykir skemmtilegt á hverjum degi. Stundum felur þetta þó í sér ákveðnar fórnir. Setja þarf mikla orku í að gera áhugamálið að starfi sínu og þetta krefst mikillar einbeitingar til að ná settu marki. Þetta getur hæglega bitnað á öðrum þáttum í lífinu, s.s. félags- og einkalífi og falið í sér ákveðna fjárhagslega áhættu. Meta þarf kosti og galla í þessu sem og öðru, en til langs tíma litið gæti það verið vel þess virði.

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar