Margar ástæður geta verið fyrir því að fólk segir upp vinnunni sinni

Fólki getur t.a.m. liðið illa á vinnustaðnum af fjölmörgum ástæðum. Starfið sjálft, launin eða önnur kjör geta reynst öðruvísi en upphaflega var samið um. Eins geta komið upp stöður sem viðkomandi sættir sig ekki við. Stundum er ástæðan líka einfaldlega sú að fólk vill róa á ný mið; fara í nám, flytjast búferlum eða prófa eitthvað nýtt.

Ýmsu þarf að huga að áður en vinnunni er sagt upp

Fólk þarf  að vera með það á hreinu hvernig það sér fyrir sér lífið án launa. Nauðsynlegt er að kynna sér reglur um uppsagnarfrest, réttindi og skyldur. Hér að neðan má finna svör við spurningum sem gætu brunnið á vörum fólks.

Uppsagnarfrestur

Lágmarks uppsagnarfrestur er 1 mánuður. Stundum er samið sérstaklega um uppsagnarfrest í ráðningarsamningi, en ólöglegt er að semja um styttri frest en lög kveða á um. Einnig getur verið að fresturinn lengist eftir því sem lengur er unnið. Algengt er að uppsagnafrestur sé 1 mánuður fyrir fyrsta ár í starfi, 2 mánuðir eftir þrjú ár í starfi og 3 mánuðir eftir fimm ár í starfi. Fyrir þá sem hafa unnið í minna en eitt ár gilda aðrar reglur sem eru mismunandi eftir stéttarfélögum.

Trúnaðarmenn á vinnustað og fulltrúar stéttarfélaga geta veitt upplýsingar um uppsagnarfrest fólks.

Gott er að hafa eftirfarandi í huga . . .

  • Uppsögn þarf að vera skrifleg svo hún sé lögmæt.
  • Uppsagnarfrestur er gagnkvæmur: Hann er sá sami hvort sem launþegi eða atvinnuveitandi segir upp. Því hafa báðir aðilar sömu skyldu til að virða þennan frest.
  • Ef atvinnuveitandi vill ekki að fólk vinni uppsagnarfrestinn, þarf hann samt að greiða laun fyrir tímabilið.
  • Ef fólk er með tímabundinn ráðningarsamning (oftast eitt ár í senn), þá getur hvorki það né vinnuveitandinn sagt honum upp nema með samþykki hins aðilans.

Hefur maður atvinnuleysisbótarétt ef maður segir starfi sínu upp sjálfur?

Þeir sem eru reknir eða klára tímabundinn ráðningarsamning eiga rétt á atvinnuleysisbótum strax á fyrsta degi eftir að vinnu lýkur. Þeir sem segja upp starfi sínu sjálfir þurfa hinsvegar yfirleitt að bíða í 2 til 3 mánuði eftir því að öðlast atvinnuleysisbótarétt. Undantekningar geta þó verið á þessari reglu ef ríkar ástæður voru fyrir uppsögninni af hálfu starfsmannsins. Vinnumálastofnun leggur mat á hvert tilvik fyrir sig.

Hvað tekur við?

Ef tekin er ákvörðun um að segja upp starfi er mikilvægt að vera með skýra áætlun um hvað tekur við. Best er að geyma uppsögnina þar til búið er að tryggja örugga framfærslu í framhaldinu og vera með frekari aðgerðaáætlun. Hætti maður í vinnunni og stefni beint í aðgerðarleysi er hætt við að maður leiðist út í þunglyndi og kvíða og verði mjög óánægður með sjálfan sig. Fljótlega hættir maður að upplifa dagana sem frídaga og iðjuleysið fer að valda manni kvölum.

 

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar