Hvað þýðir að vinna svart?
Svört atvinnustarfsemi kallast það þegar einstaklingur selur vinnu sína án þess að greiða af henni skatta eða önnur gjöld. Yfirleitt er þá greitt fyrir vinnuna í peningum og er þá engin kvittun eða launseðill gefinn út fyrir. Svört vinna hefur yfirleitt þrifist betur í ákveðnum starfsgreinum þar sem fólk starfar sem verktakar. Fólk sér sér oft leik á borði, því báðir njóta góðs af – þ.e. atvinnuveitandi getur borgað lægri laun og launþegi þarf ekki að borga skatt, og fær þar af leiðandi samt meira í vasann. Varan eða þjónustan er því yfirleitt örlítið ódýrari þegar borgað er svart.
Hvaða afleiðingar hefur svört atvinnustarfsemi?
Svört atvinnustarfsemi hefur aðallega slæm áhrif á samfélagið, en hún getur líka komið illa niður á þeim sem taka þátt í henni. Fólk sem vinnur svarta vinnu aflar sér ekki almennra réttinda, t.a.m. til atvinnuleysisbóta, lífeyrissjóðsgreiðslna og orlofs, né annarra réttinda sem almennir launþegar öðlast með því að greiða skatta. Eins eru þeir sem stunda svarta vinnu ekki tryggðir ef upp koma vinnuslys eða önnur óhöpp.
Viðurlög eru við svartri vinnu því hún flokkast jú sem skattsvik. Sé fólk nappað má það búast við háum sektum. Svartri vinnu fylgir líka óöryggi þegar kemur að greiðslu launa. Ef vinnuveitandi greiðir ekki laun er nær ómögulegt að krefja hann um greiðslur. Alvarlegustu afleiðingar sem svört atvinnustarfsemi hefur í för með sér eru hinsvegar þær að tekjur renna ekki til ríkissjóðs. Slíkt bitnar á þjóðinni allri því þá koma minni peningar inn til að reka ríkið og þjónustu þess.
Hvernig er unnið gegn svartri atvinnustarfsemi?
Svört atvinnustarfsemi grefur undan innviðum samfélagsins: að greiða ekki skatt þýðir í raun það sama og að stela frá öllum samborgurum sínum. Árið 2011 stóðu Ríkisskattstjóri, Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands fyrir átaki að bættum atvinnuháttum undir yfirskriftinni „Leggur þú þitt af mörkum?“. Markmið átaksins var að taka á svartri atvinnustarfsemi í íslensku samfélagi og efla þannig samvitund og siðgæði hvað þessi mál varðar. Á endanum ræðst það af samvisku hvers og eins hvort hann tekur þátt í svartri atvinnustarfsemi eða ekki, hvort sem það er með kaupum eða sölu.
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?