Hvað er ferilskrá?

Ferilskráin skal fylgja með starfsumsókn. Hún inniheldur allar helstu upplýsingar um umsækjandann og það sem hann hefur fengist við síðustu árin. Ferilskráin skal vera sett upp á einfaldan og stílhreinan hátt. Ekki dugar að senda eingöngu ferilskrá þegar sótt er um starf.  Það er auðvitað eftirminnilegast að gera sína eigin persónulegu ferilskrá, en einnig er hægt að búa til rafræna ferilskrá á vefsíðu EUROPASS, sem maður getur svo hlaðið niður.

Ferilskráin byrjar svona:

Dæmi um header á ferilskrá

Persónuupplýsingar

Efst í ferilskránni er nafn, heimilisfang, símanúmer, tölvupóstfang og kennitala. Gott er að hafa þessar upplýsingar listaðar upp vinstra megin og setja góða passamynd hægra megin. Mikilvægt er að velja mynd sem hæfir atvinnuumsókn. Hún má vera glaðleg, en verður einnig að vera fagleg og bera vott um ábyrgð. Best er einnig að nota varanlegt og faglegt tölvupóstfang.

Menntun

Dæmi um menntun á ferilskrá

Fyrir neðan koma upplýsingar um ferilinn. Efst skulu vera upplýsingar um menntun. Síðasta menntun eða prófgráða kemur fyrst. Taka skal fram námstímabil, nafn skóla og námsbraut og aðal- og aukagrein ef við á. Einnig má skrifa aðaleinkunn úr lokaprófi og upplýsingar um valáfanga, telji maður að það komi að gagni í þessari tilteknu umsókn. Hafi maður enn ekki útskrifast skal taka fram að námi sé ólokið.
Dæmi:

Starfsferill

Dæmi um fyrri störf á ferilskrá

Á eftir menntun kemur starfsferillinn. Síðasta starf efst, svo næstsíðasta o.s.frv. Tilgreina skal tímabilið sem unnið var, nafn fyrirtækisins og starfstitill. Gott er að hafa einnig stutta og hnitmiðaða lýsingu á hverju starfi og ábyrgðinni sem því fylgdi.
Dæmi:

Námskeið og almenn kunnátta

Dæmi um námskeið og reynslu á ferilskrá

Næst koma aðrar upplýsingar, til dæmis námskeið sem maður hefur sótt. Mikilvægt er að taka einnig fram aðra kosti og réttindi, til dæmis bílpróf eða önnur vélaréttindi, hvort maður talar eða skilur erlent tungumál, jafnvel þótt það sé bara lítillega. Einnig skal tilgreina alla tölvukunnáttu eða þekkingu sem gagnast getur í þetta tiltekna starf sem sótt er um.
Dæmi:

Tungumál – Gott er að tungumálakunnátta komi einnig fram

Dæmi um útlistun á tölvuþekkingu á ferilskrá

Tölvuþekking (Dæmi)

Annað

Sumar persónulegar upplýsingar geta einnig skipt máli. Taka skal fram ef maður hefur unnið sjálfboðastörf, tekið þátt í félagsstarfi af einhverju tagi, tekið þátt í listviðburðum, birt efni opinberlega, unnið til verðlauna eða annað. Einnig getur verið gott að segja frá  helstu áhugamálum.

Meðmælendur

Dæmi um meðmælendur á ferilskrá

Að lokum skal tilgreina meðmælendur. Mikilvægt er að hafa samband við fyrrverandi vinnuveitendur áður en umsóknin er send og spyrja hvort maður megi setja nafn þeirra á blað. Þá skal tiltekið fullt nafn, starfstitill, fyrirtæki, og í hvaða síma og tölvupóstfang megi hafa samband. Athugið að kennarar og leiðbeinendur geta einnig veitt meðmæli.
Dæmi:

Áður en byrjað er á ferilskrá er gott að hafa eftirfarandi í huga . . .

  • Ferilskráin má ekki vera of löng. Hámarkslengd er 2 til 3 síður.
  • Vandað málfar skiptir miklu máli. Mikilvægt er að fá einhvern til að lesa ferilskrána yfir áður en hún er send.
  • Góð regla er að hafa nákvæmni og heiðarleika að leiðarljósi þegar ferilskrá er unnin.
  • Áður en byrjað er að skrifa ferilskrá er gott að gefa sér tíma í að ákveða hvað ætti helst að koma fram.
  • Mikilvægt er að láta persónulegt bréf fylgja með umsókninni. Á Áttavitanum getur fólk fengið upplýsingar um hvernig útbúa skal slíkt kynningarbréf.
  • Sniðugt er að uppfæra ferilskrána reglulega svo fólk sé ávallt tilbúið til að sækja um starf.
  • Mikilvægt er að laga ferliskrána ávallt að því tiltekna starfi sem sótt er um.

Á Áttavitanum má finna fleiri greinar um atvinnuumsóknir og myndband sem fjallar um undirbúning fyrir atvinnuviðtalið.

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar