ASÍ eða Alþýðusamband Íslands er stærsta fjöldahreyfing launafólks á Íslandi. ASÍ berst fyrir bættum kjörum launafólks og stendur vörð um réttindi þeirra.
Aðildarfélög ASÍ eru 53 talsins og eru félagsmenn þeirra um 110 þúsund. Félagsmenn aðildarfélaga ASÍ eru í margvíslegum störfum svo sem í sjávarútvegi, verslun og þjónustu, iðnaði, skrifstofustörfum og umönnun svo eitthvað sé nefnt.
ASÍ hefur í nær hundrað ár haft mikil áhrif á íslenskt samfélag og hvatt til margvíslegra mikilvægra úrbóta fyrir félagsmenn sína. Án verkalýðshreyfingarinnar hefði það velferðarkerfi sem við þekkjum nú ekki orðið með sambærilegum hætti og raun ber vitni. Til að gefa dæmi um framfaramál sem ASÍ hefur barist fyrir og komið í gegn frá stofnun Alþýðusambandsins 1916 má nefna:
Vökulögin 1921
Vökulögin kváðu á um 6 tíma lágmarkshvíld. Fram að því voru engin takmörk fyrir því hversu lengi var hægt að láta fólk vinna. Þess voru dæmi að sjómenn á togurum stæðu vaktir sólarhringum saman.
Lög um verkamannabústaði 1929
Verkalýðshreyfingin hóf snemma afskipti af húsnæðismálum og ein af kröfunum í fyrstu kröfugöngunni 1. maí 1923 var „engar kjallarakompur – holla mannabústaði“. Tilgangurinn með lögunum var að hjálpa þeim verkamönnum að eignast sómasamlegt húsnæði sem að bjuggu við þröngan húsakost.
Lög um almannatryggingar 1936
Lög um alþýðutryggingar tóku gildi 1936 og Tryggingarstofnun ríkisins var sett á stofn til að sjá um framkvæmdina. Þarna var lagður grunnur að því velferðarkerfi sem við Íslendingar búum við nú.
Vinnulöggjöfin 1938
Með setningu laganna urðu verkföll lögleg en þeim mátti þó aðeins beita í kaupdeilum og því aðeins að þau hafi verið boðuð með sjö daga fyrirvara.
Orlofsmálin 1942
Árið 1942 öðlaðist allt íslenskt launafólk rétt til orlofs. Með kjarasamningunum það ár fékkst 12 daga sumarleyfi. Dögunum fjölgaði í 18 árið 1956.
Atvinnuleysistryggingar 1956
Sex vikna verkfallið svokallaða 1955 skall á í kjölfar langvarandi atvinnuleysis og mikillar kjaraskerðingar. Verkfallið einkenndist af mikilli hörku. Það sem hafði mest áhrif til langs tíma var að ríkisstjórnin gaf fyrirheit um að samþykkja lög um atvinnuleysistryggingar.
Lög um launajafnrétti 1962
Í upphafi 20. aldar bjuggu margar konur við mikið harðræði í vinnu og fengu fyrir mun lægri laun en karlar fyrir sömu vinnu. Lög um launajafnrétti voru samþykkt á Alþingi 1962 eftir mikla baráttu. Þrátt fyrir það er enn nokkuð í land að markmið um algert launajafnrétti hafi náðst á Íslandi.
Lífeyrissjóðir 1969
Samkomulag náðist í kjarasamningum árið 1969 um að koma á fót lífeyrissjóðum fyrir allt launafólk.
Sjúkrasjóðir 1979
Atvinnurekendum var skylt samkvæmt lögum að greiða 1% af útborguðu kaupi í sjúkrasjóð. Tilgangur sjúkrasjóða er að greiða félagsmönnum bætur í sjúkra- og slysatilfellum eftir að launagreiðslum frá atvinnurekanda líkur.
Feðraorlof 2000
Helstu markmiðin með lögunum voru að tryggja rétt barns til að njóta samvista við báða foreldra og að gera körlum og konum mögulegt að samræma fjölskyldulíf og atvinnuþátttöku.
Einn réttur – ekkert svindl 2005
Verkalýðshreyfingin barðist af krafti gegn félagslegum undirboðum sem fór að bera á í þenslunni í upphafi nýrrar aldar, sérstaklega með fjölgun erlends vinnuafls.
Félagsmenn stéttarfélaganna sem eru í ASÍ starfa bæði á hinum almenna vinnumarkaði og hjá ríki og sveitarfélögum.
ASÍ…
- eru stærstu hagsmunasamtök íslensks launafólks,
- berst fyrir bættum kjörum og réttindum,
- gætir hagsmuna launafólks gagnvart atvinnurekendum og stjórnvöldum,
- sinnir margvíslegri þjónustu við aðildarfélög og félagsmenn,
- tekur virkan þátt í erlendu samstarfi samtaka launafólks.
Hægt er að kynnast samtökunum betur á www.asi.is
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?