Hvernig er hægt að stofna einkahlutafélag?
Til að stofna einkahlutafélag þarf að fylla út nokkur skjöl og senda til Ríkisskattstjóra. Þá þarf einnig að eiga 500.000 krónur til að leggja inn á reikning sem stofnaður er í nafni fyrirtækisins eða hafa eignir sem metnar eru uppá 500.000 kr. Jafnframt þarf að greiða stofngjald til Ríkisskattstjóra að upphæð 131.000 krónur.
Hvað kostar að stofna fyrirtæki?
Samtals kostar það 631.000 krónur að stofna einkahlutafélag. Þar af fara 500.000 krónur inn á bankabók á nafni fyrirtækisins og 131.000 til ríkisskattstjóra í gjöld.
Hvaða gögnum þarf að skila inn til að stofna fyrirtæki?
Eyðublöðin sem fylla þarf út eru fjögur. Þau má öll nálgast hér að neðan. Skjölunum þarf öllum að koma til Ríkisskattstjóra.
- Tilkynning um stofnun einkahlutafélags.
- Stofnsamningur. (margir) / stofnsamningur (einn aðili)
- Samþykktir.
- Stofnfundargerð.
Einnig er hægt að stofna einkahlutafélag með rafrænum hætti á vefsíðu ríkisskattstjóra og tekur skráning einungis tvo virka daga að fara í gegn. Til þess að fara rafrænu leiðina er nauðsynlegt að vera með rafræn skilríki.
Tilkynning um stofnun einkahlutafélags
Tilkynningu um stofnun einkahlutafélags þurfa allir eigendur/stjórnarmenn fyrirtækisins að skrifa undir, auk tveggja votta.
- Eyðublaðið má nálgast á heimasíðu RSK auk leiðbeininga við útfyllingu þess.
Stofnsamningur
Stofnsamningurinn er hugsaður fyrir stofnendur fyrirtækisins. Þar kemur fram hvað fyrirtækið gerir, hverjir eru skráðir fyrir því, hversu mikið fé er í það lagt og hversu stóran hluta hver á. Þarna þurfa að koma fram upplýsingar um alla eigendur þess.
- Sýnishorn af stofnsamningi má nálgast á heimasíðu RSK.
Samþykktir
Þetta er staðlað eyðublað þar sem fram skal koma hvernig fyrirtækið skuli vera rekið, hver tilgangur þess er, hversu mikið fé er sett í það, og fleira í þeim dúr. Allir eigendur fyrirtækisins þurfa að skrifa undir þessa samþykkt.
- Eyðublaðið má nálgast á heimasíðu RSK.
Stofnfundargerð
Stofnfundargerð er frá þeim fundi þar sem allir eigendur fyrirtækisins komu saman og samþykktu stofnun þess. Nauðsynlegt er að taka fram allt það sem átti sér stað á fundinum. Þessa fundargerð þurfa svo allir eigendur fyrirtækisins að undirrita.
- Form fyrir fundargerð má nálgast á heimasíðu RSK.
Viltu fleiri upplýsingar um vinnumarkaðinn?
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?