Það eru til ótal starfsstéttir í heiminum og það getur verið erfitt að velja hvað maður vill verða.  Sumir fást aðeins við eitt starfssvið út ævina, á meðan aðrir flakka á milli starfsstétta og takast á við mörg mismunandi verkefni.  Í greinaröðinni Hvernig verð ég […]? ætlum við að fara yfir leiðina að mismunandi störfum.  Hér beinum við sjónum okkar að forritun.

Árið 1842 lýsti Ada Lovelace algrími sem var vísir að fyrsta forritinu og er því kölluð fyrsti forritarinn. Forritun er sívaxandi grein og undirstaða tækni eins og við þekkjum hana í dag.  Þetta er því algerlega greinin til að veðja á ef þú vilt starfsöryggi.  Nema það komi dystóspísk ragnarök.  Þá er best að vera bara skáti og kunna að bjarga sér.

Hvað gerir forritari?

Að baki nær allri tækni er einhvers konar forritun.  Hún getur verið í einföldu formi og gríðarlega flóknu formi.  Öll öpp sem við notum, tölvuforrit, vafrar og meira að segja umferðarljós eru forrituð af forritara.  Því meira sem tækninni fleygir fram, því mikilvægari verða forritarar.  Þetta er því augljóslega geiri sem vert er að sækja í, enda starfsmöguleikar margir, launakjör góð og mikil nýsköpun í faginu.

Hvernig veit ég hvort forritun sé eitthvað fyrir mig?

Margir forritarar læra forritun að mestu leyti á netinu og við það að prófa sig áfram og það getur þú líka gert.  Á vefnum eru fjölmargar síður þar sem þú getur lært forritun, til að mynda Codecademy.

Hvar lærir maður að verða forritari?

Eins og áður segir þá lærist forritun mest af reynslunni og með sjálfsnámi á netinu.  Margir forritarar sem starfa við forritun hafa ekki lokið háskólanámi, þó það hjálpi auðvitað og hækki launin.

Forritun fyrir börn

Sumir grunnskólar bjóða upp á kennslu í forritun og má ætla að það fari vaxandi.  Skema býður upp á forritunarnámskeið fyrir börn á aldrinum 7-16 ára, en þar er hægt að læra tölvuleikjaforritun, iPad-forritun, vefsmíði og fleira. 

Forritunarnámskeið

Nám á framhaldsskólastigi

  • Tækniskólinn býður upp á tölvubraut, en þar lærir maður undirstöðuatriðin í forritun og fleiru.
  • Fjölbrautarskólinn í Breiðholti býður uppá tölvubraut þar sem sambland af bóknámi og verknámi sem unnið er í samvinnu við atvinnulífið.
  • Fjölbrautarskóli Suðurnesja býður upp á tölvufræðibraut með því megin markmiði að nemendur fái góða undirstöðuþekkingu á sem flestum sviðum tölvutækninnar og öðlist færni sem nýtist þeim á vinnumarkaði og í áframhaldandi nám á þessu sviði

Forritun er ennfremur kennd í stökum áföngum í flestum framhaldsskólum.

Nám á háskólastigi

Forritun er kennd sem hluti af tölvunarfræði og hugbúnaðarverkfræði í Háskóla Íslands og Háskólanum í Reykjavík.

Hvar mun ég svo starfa sem forritari?

Forritarar starfa í hugbúnaðargeiranum, hjá hinu opinbera og hjá flestum stórum fyrirtækjum.  Starfsmöguleikarnir eru nánast óteljandi.

 

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar