Það eru til ótal starfsstéttir í heiminum og það getur verið erfitt að velja hvað maður vill verða. Sumir fást aðeins við eitt starfssvið út ævina, á meðan aðrir flakka á milli starfsstétta og takast á við mörg mismunandi verkefni. Í greinaröðinni Hvernig verð ég […]? ætlum við að fara yfir leiðina að mismunandi störfum. 

Rithöfundar sinna meðal annars:

  • Skapandi skrifum
  • Þýðingum
  • Handritaskrifum fyrir leik- og kvikmyndir
  • Þáttagerð
  • Fréttamennsku
  • Kennslu
  • Ritstjórn og kynningarstjórn
  • Fjölmörgu sem krefst færni í rituðu máli

Hvernig veit ég hvort að ritstörf séu eitthvað fyrir mig?

Ef þú hefur unun af því að lesa og lítur upp til þeirra sem geta komið frá sér flottum texta leynist eflaust nægileg ástríða í brjósti þér til þess að verða fær um slíkt. Það krefst sjálfsaga að setjast niður á hverjum degi og skrifa, gera það að daglegri venju eins og að fara í sokka.

Hugmynd að leið til þess að mæla áhugann er að skrifa í tíu mínútur á dag í mánuð. Ef löngun þín til þess að elta þennan starfsframa hefur aðeins aukist eftir þá áskorun, er þetta mögulega rétt leið fyrir þig.

Hvernig verð ég rithöfundur á Íslandi?

Hægt er að stunda nám í ritlist á meistarastigi við Háskóla Íslands. Þar „(…) gefst áhugafólki um ritsmíðar færi á að þroska hæfileika sína undir handleiðslu reyndra höfunda. Lögð er áhersla á frjóa hugsun og miðlun hennar í listrænum texta af ýmsu tagi. Meðfram eru lesnar bókmenntir hvaðanæva úr heiminum.“ Einnig eru fjölmargir sem sinna ritstörfum sem hafa ekki beina formlega menntun í faginu. Langvarandi áhugi á lestri og skrifum spilar þar oft sterkt hlutverk ásamt námi eða vinnu þar sem færni í að koma frá sér texta kemur við sögu. Margir rithöfundur eru með menntun í hugvísindum; til dæmis bókmenntafræði, heimspeki eða málvísindum.

Útgáfa

Ef þú hefur áhuga á að gefa út bók þá væri það mikill meðbyr að komast á samning hjá bókaútgefenda. Oft á tíðum sjá þeir þá um prent, markaðssetningu og kynningarstarf ásamt því að dreifa bókinni. Hægt er að kynna sér bókaútgefendur og hvernig bækur þeir eru að gefa út og sjá hvort þín bók eigi upp á pallborðið hjá þeim.

Einnig er hægt að senda frá sínar eigin bækur hvort sem þær eru handskrifaðar á vegan kálfaskinn eða fengnar funheitar úr þinni uppáhalds prentsmiðju!

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar