Það eru til ótal starfsstéttir í heiminum og það getur verið erfitt að velja hvað maður vill verða.  Sumir fást aðeins við eitt starfssvið út ævina, á meðan aðrir flakka á milli starfsstétta og takast á við mörg mismunandi verkefni.  Í greinaröðinni Hvernig verð ég […]? ætlum við að fara yfir leiðina að mismunandi störfum.  Hér beinum við sjónum okkar að pólitíkusum.

Hvað gerir stjórnmálamaður?

Stjórnmálamenn stjórna landinu.  Á Alþingi Íslendinga sitja 63 þingmenn, annað hvort í stjórn eða stjórnarandstöðu.  Þeirra hlutverk er að vera fulltrúar fyrir fólkið í landinu, kynna sér öll þau mál er landið varðar og taka eins upplýsta ákvörðun og í þeirra valdi stendur.  Um 500 sæti eru svo í sveitastjórnum landsins, en bæjar- og borgarfulltrúar eru flestir í hlutastarfi við að stjórna sveitarfélögum og hafa því oft annað aðalstarf.  Hlutverk bæjarfulltrúa er að taka ákvarðanir sem snúa að bæjarmálum.  Auk þess sitja þúsundir einstaklinga í nefndum og ráðum á vegum sveitarfélaga, og/eða eru varafulltrúar á þingi eða í sveitastjórn.  Allt þetta fólk gæti kallast stjórnmálamenn.  Að auki eru fjöldi embættismanna sem vinna í opinberri stjórnsýslu, ráðuneytum, sem ópólitískt ráðnir bæjarstjórar og starfsmenn flokka.  Við ætlum ekki að fjalla um allt þetta fólk, heldur aðeins þá sem eru kjörnir af almenningi.

Hvernig veit ég hvort pólitík sé eitthvað fyrir mig?

Stjórnmál snúast um að hafa áhuga á samfélagsmálum og vilja hafa áhrif á ákvarðanatöku í þeim málefnum er varða líf íbúa landsins eða sveitarfélagsins.  Í stjórnmálastarfi eru allir velkomnir og þú getur sótt fundi, tekið þátt í umræðum og starfi stjórnmálaflokkanna til að finna út hvort þú eigir heima í pólitík.

Ungliðahreyfingar stjórnmálflokkanna eða félagasamtök (t.d. stúdentaráð, nemendafélög, ungmennaráð) eru góður staður til að hefja þátttöku í stjórnmálum. Flestar ungliðahreyfingarnar eru opnar öllu ungu fólki á aldrinum 16 til 30/35 ára.

Ungliðahreyfingar stjórnmálaflokkanna á Alþingi eru:

Auk þingflokkanna eru fjöldi stjórnmálahreyfinga sem ekki náðu á þing eða starfa einvörðu í sveitarfélögum.

Hvar lærir maður að verða stjórnmálamaður?

Maður lærir svo sem hvergi að verða stjórnmálamaður.  Stjórnmálafræði er kennd í Háskóla Íslands og margir telja að MORFÍS ræðukeppnin sé útungunarstöð fyrir pólitíkusa.  Það er þó ekkert endilega rétt, því að stjórnmálafólk hefur mjög fjölbreytta menntun og reynslu.  Á Alþingi árið 2014 sátu til dæmis 10 kennarar, 9 lögfræðingar, 9 viðskipta- og/eða hagfræðingar, 7 sem höfðu að baki nám í tungumálum eða bókmenntum en aðeins 5 stjórnmálafræðingar.  Að auki voru þingmenn með nám eða mikla starfsreynslu í líffræði, búfræðum, sagnfræði, sjávarútvegi, heimspeki, mannfræði og fjölmiðlun og ennfremur sátu á þingi árið 2014 forritari, skáld, tónlistarmaður, listfræðingur, dýralæknir,  innanhússhönnuður, húsasmiður, fötlunarfræðingur og fleira.  10 þingmenn hafa ekki lokið háskólamenntun eða annarri sambærilegri menntun.*

Stjórnmálamenn geta því verið með hvaða menntun sem er og skiptir þá mestu máli að hafa áhuga á samfélagsmálum, hugsjónir, drifkraft, góða framkomu, gott tengslanet, næmni fyrir kænsku og útgeislun.  Flestir byrja á því að starfa með stjórnmálaflokkum og vinna sig upp, en oft kemur þó fyrir að fólk sem er þekkt í þjóðfélaginu, t.d. úr fjölmiðlum, stekkur beint í öflugt sæti.

Margir flokkar velja á lista með prófkjöri eða flokksvali og þá þarf einstaklingurinn að bjóða sig fram, kynna sig vel og stunda kosningabaráttu með ýmsum aðferðum.  Aðrir flokkar velja með uppstillingarnefnd og sér þá lítill hópur fólks um að skipa fólk á lista sem þykir sigurstranglegur.  Þá er eina ráðið að vera búinn að taka þátt í starfi flokksins og kynna sig þannig.  Nánar er fjallað um val flokka á lista í greinninni Hvernig velja flokkar frambjóðendur sína?

Hvar mun ég svo starfa sem stjórnmálamaður?

Eins og fyrr segir eru stjórnmálamenn kjörnir en ekki ráðnir.  Þeir starfa sumir í fullu starfi en aðrir eru í hlutastarfi.  Á þingi sitja 63 þingmenn, í bæjarstjórnum eru svo um 500 sæti og að auki sitja þúsundir manna í nefndum og ráðum á vegum sveitastjórna.

*Athugið að þetta er mjög lauslegt mat á námi og atvinnureynslu og að margir þingmenn eru tví- eða þrítaldir vegna fjölbreyttrar menntunar og atvinnu.

 

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar