Það eru til ótal starfsstéttir í heiminum og það getur verið erfitt að velja hvað maður vill verða.  Sumir fást aðeins við eitt starfssvið út ævina, á meðan aðrir flakka á milli starfsstétta og takast á við mörg mismunandi verkefni.  Í greinaröðinni Hvernig verð ég […]? ætlum við að fara yfir leiðina að mismunandi störfum.  Hér beinum við sjónum okkar að geimförum.

Hvað gerir geimfari?

Verkefni geimfara er falið í orðinu sjálfu, -sá (eða sú) sem fer út í geim. Í dag eru helstu verkefni geimfara tengd alþjóðageimstöðinni sem er á sporbaug um jörðu. Þar er verið að sinna mörgum mikilvægum rannsóknum. Á meðan geimferja Bandaríkjanna var enn í notkun sinntu geimfarar einnig viðhaldi á gervihnöttum ásamt rannsóknum. Þær ferðir voru mun styttri nokkrir dagar eða vikur. Á meðan flestir eyða mánuðum í geimstöðinni nú til dags. Í framtíðinni eru ýmis konar áform um lengri leiðangra en oft eru þau háð fjármagni.  Því er óvíst hvort það komi til með að rætast úr öllum áætlunum. Samkvæmt tölum FAI https://www.fai.org/sport/space hafa 556 einstaklingar farið út í geim.

Hvernig veit ég hvort geimferðir séu eitthvað fyrir mig?

Hefurðu brennandi áhuga á geimnum og vísindum? Næstum allir geimfarar sem koma úr röðum almennra borgara eru með mastersgráðu eða doktorsgráðu í raungreinum, verkfræði eða stærðfræði. Þó eru til undantekningar þar sem Geimferðastofnun Bandaríkjanna (NASA) hefur ráðið nokkra kennara en þeir hafa allir jafnframt verið með B.S. gráður í þessum greinum. Flugmenn, hvort sem þeir eru borgarar eða hermenn, þurfa að vera með sambærilegar B.S. gráður og auk þess að hafa flogið meira en 1000 klukkustundir sem flugstjóri. Geimfarar þurfa að vera við fullkomna heilsu og flestar geimvísindastofnanir eru með ákveðin hæðarhámörk og lágmörk (Geimferðastofnun Evrópu, ESA, miðar við 153-197cm). Auk þess þurfa geimfarar að vera með gott geðslag enda hluti starfsins að vera lokaður inni með öðrum í lengri tíma og nauðsynlegt að allir geti unnið vel saman. Svo verða geimfarar að vera ríkisborgari í landi sem er með eða er aðildaraðili að geimvísindastofnun en Ísland uppfyllir ekki þetta skilyrði.

Hvar lærir maður að verða geimfari?

Skref 1: Ríkisfang

Ef þú ert einungis með íslenskan ríkisborgararétt er einfaldast að byrja í því að verða sér út um nýjan ríkisborgararétt hjá landi sem er með geimvísindastofnun. Hinn möguleikinn væri að sannfæra íslensk stjórnvöld að taka þátt í samstarfi Geimferðastofnun Evrópu (ESA – European Space Agency) en líklega er auðveldara að verða sé út um nýtt ríkisfang. Þar sem Ísland er meðlimur í EES (Evrópska efnahagssvæðinu) er auðveldast að líta til þeirra Evrópulanda sem eru hluti af Geimferðastofnun Evrópu. Hvert land hefur mismunandi skilyrði sem þarf að uppfylla áður ríkisborgararéttur er veittur.

Skref 2: Hæð og heilsa

Lítið er hægt að gera ef maður er of há- eða lávaxinn en margt er hægt að gera til að hafa heilsuna í lagi. Til dæmis eykur þú líkurnar með því stunda líkamsrækt og borða hollan mat.

Skref 3: Menntun og starfsreynsla

Á Íslandi er mögulegt að verða sér út um viðeigandi masters- og doktorsgráður í Háskóla Íslands og Háskóla Reykjavíkur. Erlendis eru einnig margir skólar sem bjóða upp á nám í þessum greinum.
Þegar námi er lokið verða flestir geimfarar sér út um starfsreynslu. Enda er algengast að umsækjendur séu á fertugsaldri (30-40 ára). Þannig að gott vinna við eitthvað sem tengist fræðigreininni sem þú valdir í nokkurn tíma áður en sótt er um hjá geimferðastofnun. Sumir læra til flugmanns eftir nám og vinna við það í nokkur ár.

Skef 4: Sækja um hjá geimferðastofnun

Þegar að þessu öllu er lokið er hægt að sækja um hjá viðkomandi geimferðastofnun. Umsóknarferlið er erfitt og margir að bítast um fáar stöður. En með réttri skapgerð og metnaði er allt mögulegt svo ekki láta neitt draga úr þér. Maður veit aldrei nema láta á reyna.

Skref 5: Þjálfun og sérfræðinám hjá geimferðastofnun

Eftir að hafa uppfyllt allar kröfur og komist í gegnum umsóknarferlið fara geimfarar í 2-3 ára sérfræðinám hjá viðkomandi geimferðastofnun. Þar sérhæfa þeir sig í ákveðnum rannsóknum og ferlum sem nauðsynlegt er að hafa á hreinu áður en haldið er af stað út í geim.

Önnur störf tengd geimferðum

Þó erfitt sé að komast út í geiminn er mögulegt fyrir flesta sem hafa áhuga og getu að taka þátt geimrannsóknum. Margir skólar, sem eru í samstarfi við íslenska háskóla, bjóða upp á slíkt nám en það getur verið mjög gefandi að taka þátt í smíði einhvers sem er sent út fyrir gufuhvolfið eða jafnvel til annarrar plánetu. Þeir sem hafa áhuga geta til dæmis skoðað þessa deild í Tækniháskólanum í Danmörku (DTU).

Ferðamenn í geimnum

Í framtíðinni verður mögulegt fyrir hefðbundna borgara að gerast geimferðamenn og eru til nokkur fyrirtæki sem eru að stefna að þessu. Frægast þeirra er Virgin Galactic en það varð fyrir áfalli árið 2014 þegar tilraunarflugvél hrapaði.

Hvar mun ég svo starfa sem geimfari?

Ef þú ert einni hinna útvöldu sem færð tækifæri til að fara út í geim er líklegast að þú munir starfa hjá einhverri af þeim geimvísindastofnunum sem þegar eru til.

  • NASA – Bandaríska geimferðastofnunin
  • ESA – Evrópska geimferðastofnunin
  • CSA – Kanadíska geimferðastofnunin
  • CNSA – Kínverska geimferðastofnunin
  • JAXA – Japanska geimferðastofnunin
  • ISRO – Indverska geimferðastofnunin

Fyrirtæki eins og til dæmis SpaceX  eru líka að hasla sér völl í geimbransanum og stefna á að senda geimfara á sporbaug innan tíðar.

Heimildir:

Viðtal við geimfara
Hvernig verður maður geimfari ESA
Skilyrði til að verða geimfari ESA
Hvernig verður maður geimfari

Mynd fengin frá Wikipedia Commons

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar