Hvernig verð ég páfi?

0
733

Það eru til ótal starfsstéttir í heiminum og það getur verið erfitt að velja hvað maður vill verða.  Sumir fást aðeins við eitt starfssvið út ævina, á meðan aðrir flakka á milli starfsstétta og takast á við mörg mismunandi verkefni.  Í greinaröðinni Hvernig verð ég […]? ætlum við að fara yfir leiðina að mismunandi störfum.  Hér beinum við sjónum okkar að starfi páfans.

Hvað gerir páfinn?

Páfinn er biskup yfir Róm og leiðtogi hins kaþólska heims.  Völd páfans koma frá hlutverki hans sem arftaka Lykla-Péturs og þess vegna skartar skjaldamerki páfans tveimur lyklum.  Páfinn er einnig þjóðhöfðingi Vatíkansins, smæsta ríkis Evrópu.  Páfinn hefur margvíslegar skyldur og er leiðandi í túlkun kaþólikka á sínu heilaga orði.

Hvernig veit ég hvort starf páfans sé eitthvað fyrir mig?

Til þess að vera páfi þarf maður að hafa óbilandi áhuga á kaþólskri trú.

Vissir þú að Frans, núverandi páfi, tístir á latínu?

Hvar lærir maður að verða páfi?

Það er enginn sérstakur páfaskóli, en þó margvísleg skilyrði og að auki kröfur um langt og strangt nám.  Athugið að hverju sinni er aðeins einn páfi í heiminum, svo líkurnar á því að hreppa starfið eru nánast engar.  Enginn Íslendingur hefur nokkurn tímann verið páfi.  Ef þú ásælist þetta fjölbreytta og áhrifamikla starf þarftur að fylgja þessum skrefum og þá kannski, aðeins kannski, áttu einhvern möguleika.

  1. Þú þarft að vera karlmaður.  Sú staða hefur ekki komið upp að einhver hafi haldið biskupstign eftir að hafa farið í kynleiðréttingu, svo ekki er víst að það sé nóg.  Sumsé, ef þú ert ekki fæddur karlmaður áttu lítinn séns.
  2. Þú þarft að taka kaþólska trú og heita þess að gifta þig ekki og stunda skírlífi það sem eftir ævinnar.
  3. Ljúka grunnnámi í háskóla, svo sem trúarbragðafræði eða guðfræði.  Það er þó ekki skilyrði að ljúka nákvæmlega þeim greinum.
  4. Ljúka framhaldsnámi (mastersnámi) í kaþólskri guðfræði (e. divinity).  Slíkt nám er ekki að finna á Íslandi, en það má nema í skólum um víða veröld.  T.d.:
    Maryvale Institute (fjarnám).
  5. Hljóta vígslu sem prestur.
  6. Uppfylla skilyrði til biskups.  Til þess að verða biskup þarftu að vera 35 ára, hafa verið prestur í að minnsta kosti 5 ár og hafa doktorsgráðu.  Flestir eru með doktorsgráðu í guðfræði en sambærilegt nám gengur líka.
  7. Verða biskup.  Til þess að verða biskup þarftu að bíða eftir því að núverandi biskup deyji, fari á eftirlaun (75 ára) eða segi af sér, sem hann getur aðeins gert með samþykkt páfa.
  8. Koma þér á lista yfir kandídata til biskupsstöðu.  Sá listi er leynilegur og gerður af sitjandi biskup.  Besta leiðin til þess að vera á þeim lista er því að sanna þig í starfi sem prestur og fara oft í kaffi með núverandi biskupi.
  9. samþykki páfaþings.  Ef að þú verður fyrir valinu mun sendiherra páfagarðs í þínu umdæmi (nuncio) taka viðtal við þig.  Norðurlöndin eru með sameiginlegan sendiherra. Ef hann er sáttur sendir hann nafnið til páfaþings sem samþykkir þá eða hafnar stöðuveitingu þinni.  Athugaðu að páfinn getur beitt neitunarvaldi á stöðuveitinguna.
  10. Verða kardináli.  Páfinn sjálfur velur sér kardinála.  Kardinálar gegna starfi sínu samhliða biskupsstarfinu og eru því ennþá biskupar.  Um 200 af þeim 5000 kaþólsku biskupum heimsins eru kardínálar.
  11. Bíða eftir því að núverandi páfi deyji eða segi af sér (vegna aldurs).
  12. Skreppa til Ítalíu og taka þátt í páfakjörsfundi ásamt hinum kardinálunum.  Þú verður í einangrun allan þann tíma sem það tekur að velja nýjan páfa (sem oft getur tekið vikur).
  13. Kjósa sjálfan þig í páfakjöri.  Kardinálar skrifa nafn þess sem þeir greiða atkvæði sitt á kjörseðil og setja í leirkrukku.  Hafi ekki einn kardináli fengið tvo þriðju hluta atkvæðanna eru seðlarnir brenndir og þá liðast svartur reykur úr reykháfi páfagarðs.  Þannig sjá þeir sem eru fyrir utan að kjör páfans hafi mislukkast.  Venjulega fara 4-6 svoleiðis atkvæðagreiðslur fram á dag.
  14. Hljóta kosningu.  Ef þú hlýtur kosningu þarftu að samþykkja starfið og velja þér páfanafn.  Þú hefur úr nöfnum fyrrverandi páfa að velja.  Ef að páfakjör heppnast eru kjörseðlarnir brenndir þannig að reykurinn sé hvítur.

Hvar mun ég svo starfa sem páfi?

Starfsstöð páfans er í Vatíkaninu.  Þú munt því búa þar og starfa þaðan.  Páfi ferðast þó oft í alls kyns erindagjörðum.

Myndbandið hér að ofan útskýrir vegferðina að starfi páfans myndrænt og hressilega.

Heimildir:

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar