Hvað er verkfall?

Verkfall er þegar hópur fólks í sama séttarfélagi leggur niður störf, ýmist að hluta eða öllu leyti.  Það verður til vegna ágreinings um laun og önnur kjör, sem er samið um í  kjarasamningum.

Afhverju fer fólk í verkfall?

Fólk fer í verkfall til að berjast fyrir bættum kjörum, það er þegar vinnuveitendur og launamenn ná ekki saman um hver lágmarkslaun og önnur kjör eiga að vera.  Önnur kjör geta falist í vinnutíma, vinnuálagi og vinnuaðstöðu. Þegar stéttarfélag og annar samningsaðili, til dæmis Samtök Atvinnulífsins, eru sátt með niðurstöðuna er gerður samningur sem kallast kjarasamningur. Hann þarf einnig að senda í atkvæðagreiðslu meðal allra félagsmanna og vera samþykktur.

Hvernig veit ég hvort ég sé að fara í verkfall?

Á vefsíðu þíns stéttarfélags er yfirleitt látið vita þegar verkfall er yfirvofandi. Það er aldrei boðað til verkfalls án undangenginnar atkvæðagreiðslu meðal félagsmanna, þar sem sem meirihluti meðlima stéttarfélagsins verður að vera samþykkur því að fara í verkfall. Upp úr því er tilkynnt að verkfall sé yfirvofandi og gefnar út upplýsingar um hvenær verkfall stendur. Athugið að verkföll eru stundum tímabundin og jafnvel eingöngu hluta úr degi.

Við mælum með: Hvernig veit ég í hvaða séttarfélagi ég er í?

Fæ ég laun í verkfalli?

Nei, ekki frá vinnuveitanda, en stéttarfélög eru  flest með sjóði sem þeir nota til að greiða til félagsmanna ef af verkfalli verður. Misjafnt er hvernig eða hversu miklu er úthlutað úr sjóðunum.

Má ég ekki vinna á meðan verkfalli stendur?

Allir sem verkfall nær til verða að virða verkfallið hvort sem viðkomandi hefur samþykkt það eða ekki. Aðrir mega heldur ekki ganga í störf þeirra sem eru í verkfalli. Yfirleitt eru starfandi verkfallsverðir úr hópi þeirra sem eru í verkfalli sem sjá til þess að enginn brjóti gegn þessum reglum. Stundum eru samþykktar undanþágur, þegar ríkar ástæður eru, t.d. sinna læknar bráðatilfellum þrátt fyrir að vera í verkfalli.

Má ég vinna önnur störf á meðan ég er í verkfalli?

Í raun eru engar hömlur á því samkvæmt lögum. Samtök Atvinnulífsins (SA) hafa þó sett þessu skorður með að banna þeim fyrirtækjum sem eru innan vébanda SA að ráða til sín einstaklinga sem eru í verkfalli annars staðar.  Leitir þú út fyrir fyrirtæki innan SA, er í raun ekkert sem kemur í veg fyrir að þú vinnir þar, svo lengi sem sá staður sé undir öðrum kjarasamning en þeim sem hefur verið boðað í verkfall yfir. Ahugaðu þó að við það að vinna annars staðar á meðan verkfalli stendur ert þú sennilegast að fyrirgera þér rétti til verkfallsgreiðslna frá stéttarfélagi.

Getur eitthvað annað en nýr kjarasamningur stöðvað verkfallið?

Verkföll eru hluti af mannréttindum og því getur aðeins Alþingi, í algjörum undantekningartilfellum, sett lög sem binda enda á verkföll. Þetta er algjört neyðarúrræði þegar almannaheill er í húfi.

Heimildir og frekari lestur:

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar