Hvað eru hlutabréf?
Hlutabréf eru ávísanir á ákveðinn eignarhlut í tilteknu fyrirtæki. Hægt er að lýsa þessu sem sneið af köku: Hlutabréfið er sneiðin og kakan er fyrirtækið. Þegar fólk kaupir hlutabréf eignast það þannig hluta í fyrirtækjum og getur stundað viðskipti með þá. Sneiðarnar eru svo misverðmætar eftir stærð fyrirtækisins og hagnaði þess.
Hvernig virka hlutabréf?
Í grunninn virka hlutabréf þannig að þegar fyrirtæki gengur vel hagnast hluthafinn, þ.e. sá sem á hlut í fyrirtækinu. Ef fyrirtækinu gengur hinsvegar illa minnkar verðmæti hlutabréfsins og hluthafinn tapar. Hluthafinn á sumsé hluta af árlegum hagnaði eða tapi fyrirtækisins. Þegar hlutabréf hækkar í verði verður það að sjálfsögðu verðmætara og þá getur hluthafinn selt það dýrara en hann keypti. Einnig er greiddur út svokallaður arður, en það er gróði fyrirtækisins sem skiptist jafnt á hluthafana eftir því hvað þeir eiga stóra sneið af kökunni.
Til eru tvenns konar hlutabréf; opin og lokuð.
Ef þau eru opin þýðir það að þau eru á almennum markaði og hver sem er getur keypt þau. Slík fyrirtæki eru kennd við HF (hlutafélag). Ef þau eru lokuð þýðir það að þau eru ekki á almennum markaði og eru kennd við EHF (einkahlutafélag).
Hvernig er hægt að fjárfesta í hlutabréfum?
Kaup og sala á hlutabréfum fer fram í gegnum verðbréfamiðlara, kauphallir, banka og sparisjóði.
Á heimasíðu VÍB má finna kafla um hlutabréf úr bókinni: „Verðbréf og áhætta“.
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?