Á maður að lána vini sínum pening?

Flestir þekkja það að vinir fari fram á peningalán. Auðvitað getur verið gott að hjálpa vini í raun, en þegar um er að ræða peningalán, hvort sem þau eru stór eða smá, eru nokkur atriði sem vert er að hafa í huga.

Fólk þarf að gera það upp við sig hvort það vill lána peninga eða ekki

Maður þarf ekki að segja „já“ þótt maður sé beðinn um lán. Þetta er ákvörðun sem maður tekur sjálfur og fólk verður að sætta sig við það ef maður vill ekki lána peninga.

Hvernig er viðkomandi með sín fjármál?

Ef þetta er manneskja sem er ekki með fjármál sín í óreiðu og stendur almennt við orð sín, þá má maður gera ráð fyrir að henni sé treystandi og hún borgi til baka á tilsettum tíma. Sé þetta hinsvegar persóna sem er alltaf frekar auralaus og í einhverju basli, þá má einfaldlega gera ráð fyrir að það verði erfitt að innheimta skuldina, sama hversu manneskjan er yndisleg að öðru leyti.

Hversu mikla fjárhæð er verið að tala um?

Það felst alltaf ákveðin áhætta í að lána peninga, jafnvel þótt maður telji manneskjuna traustsins verða. Því er góð regla að lána aldrei meira en maður treystir sér til að missa. Lendi maður sjálfur í fjárhagsvandræðum, takist manni ekki að innheimta skuldina fyrir ákveðinn tíma,  þá ætti maður heldur að sleppa því að lána, eða lána minni upphæð.

Til hvers er lánið?

Maður á rétt á að fá upplýsingar um það og vega og meta ákvörðunina út frá því. Ef neyðartilvik kemur upp gæti verið eðlilegt að veita lánið. Þurfi félagi manns hinsvegar bara að borga upp neysluskuldir af því að hann hafi eytt um efni fram, þá er mjög líklegt að sama vandamál komi upp innan tíðar.

Láni maður pening skal setja skýrar línur um endurgreiðslur

Þetta á einnig við þótt upphæðin sé lág. Ákveða skal hvenær skuli borga til baka og hversu mikið í hvert skipti. Einnig er gott að ræða hvað gerist ef viðkomandi borgar ekki á tilsettum tíma, t.d. hvort þá leggist vextir á upphæðina og hversu háir þeir séu. Öll svona mál skal útkljá áður en lánið er veitt. Gott að fara fram á að komi upp einhver vandræði, þá skuli þau rædd í stað þess að viðkomandi forðist að hafa samband við mann. Ekki vill maður missa vin sinn útaf svona hlutum. Hann gæti upplifað skömm og verið feiminn við mann, og því er gott að vera búinn að útkljá slík mál fyrirfram.

Ef til vill má skrifa samninginn niður á blað

Það er ekki þörf á lögfræðingi eða einhverjum stimpli, en mikilvægt er að hafa samkomulagið niður ritað. Gott er að setja svo minnispunkt inn á dagatalið um hvenær stendur til að borga til baka og hafa samband og minna á greiðslur, ef viðkomandi borgar ekki á umræddum degi. Vilji hann semja um greiðslufrest skal skrifa niður nýju dagsetninguna og fylgja því svo eftir. Ef maður lánar stóra upphæð er eðlilegt að fara fram á tryggingu. Vinurinn gæti t.d. látið mann fá einhvern hlut sem honum er annt um og samið um að hann fái hann til baka þegar skuldin er gerð upp. Maður getur verið sveigjanlegri og sanngjarnari en bankinn, en það er mikilvægt að fólk fari ekki að ganga á lagið og misnota sér góðvild manns.

Það á ekki að leyfa vinum að komast upp með að sleppa að borga skuld

Þó svo að manni þyki vænt um vini sína og þeir séu góðar manneskjur þá þýðir það ekki að þeir megi sleppa við að borga manni. Maður gerir vini sínum engan greiða með því að sleppa honum við að borga. Ef hann sleppur við að borga mun hann lenda í sömu vandræðum aftur og kannski með mun alvarlegri afleiðingum. Því fyrr sem hann rekur sig á svona veggi því farsælli verður framtíð hans í fjármálum. Hafa þarf í huga að óútkljáð peningamál á milli vina geta gert út um vináttuna. Því er mikilvægt að spyrja sig, áður en maður lánar pening, hvort maður tími að fórna vináttunni ef illa fer.

Hvernig á maður að innheimta skuldir hjá vinum?

  • Aldrei ætti að lána vini pening, ef hann á enn óuppgerða skuld við mann.
  • Sé komið fram yfir umræddan greiðsludag skal maður minna vininn reglulega á skuldina. Ekki forðast umræðuefnið, heldur halda áfram að innheimta.
  • Vera kurteis en skýr. Útskýra að maður þurfi á peningunum að halda.
  • Gangi engan veginn að innheimta skuldina skal maður ræða það við vin sinn hvaða afleiðingar þetta hefur í för með sér fyrir mann.
  • Ákveði maður að reyna lagalegu leiðina þarf maður að gera ráð fyrir lögfræðikostnaði og hafa ríkar sannanir í höndunum.

 

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar