Þrátt fyrir að reyna að stilla drykkju í hóf lenda margir í því að vakna þunnir daginn eftir hressilegt djamm. Áttavitinn hefur tekið saman nokkur þynnkuráð, sem djammfuglar hvísluðu að honum. Þau koma hér:
- Ekki drekka á tóman maga. Það dregur stórlega úr líkunum á að verða ofurölvi og auðveldar lífið daginn eftir að nærast vel áður en byrjað er að þjóra.
- Borða eftir djammið – og þegar maður vaknar! Almennileg næring er nauðsynleg til að drepa timburmenn. Fólk upplifir oft að þynnkan hellist yfir það af fullum krafti eftir málsverð – það varir þó stutt og er í raun hluti af bataferlinu. Það er alls ekki gott að bíða með það að borða.
- Drekka nóg af vatni á milli áfengra drykkja. Mjög góð regla er hálfslíters vatnsglas eftir hvern hálfslíters bjór.
- Allt er gott í hófi. Hinn gullni meðalvegur getur oft verið mjög skemmtilegur. Stundum er til dæmis hægt að panta sér einn og einn pilsner í stað þess að fá sér bjór.
- Taka nokkrar B-vítamín töflur áður en farið er að sofa eftir djamm. Sumum finnst einnig gott að fá sér smá saltvatns upplausn, til að vinna gegn vökvatapinu sem verður af völdum áfengisdrykkjunnar.
- Að láta renna af sér áður en maður fer að sofa. Best er að borða eitthvað, drekka vel af vatni og fá sér göngutúr og frískt loft, uns áfengisvíman fer að renna af manni. Þá fyrst getur maður farið að sofa.
- Treo og C-vítamín virka vel á slæmum morgnum. Best er þá að vakna snemma og blanda eina töflu af Treo (uppleysanlegu höfuðverkjalyfi sem fæst án lyfseðils í apótekum) og eina töflu af uppleysanlegu C-vítamíni út í hálfslíters vatnsglas, dengja því í sig og helst ná að sofna aftur í svona u.þ.b. klukkustund. Þó skal hafa það í huga að það er ekki gáfulegt að nota lyf, á borð við Treo, í of miklu magni eða of oft. Þurfi maður lyf eftir hverja skemmtun ætti maður að taka drykkjuvenjurnar til endurskoðunar.
- B vítamín og Spírólína eru líka vítamín sem vinna vel gegn þynnku. En ekki sem skyndilausn, heldur er gott að gæta vítamínneyslunnar almennt dags daglega. Ráðlegt er að kynna sér æskilegan dagsskammt af vítamínum.
- Hreyfa sig utandyra. Koma sér á lappir, fara út að skokka eða í sund. Jafnvel bara smá göngutúr um hverfið getur gert gæfumun. Hreyfing og útivist á þunnum morgni hefur gríðarlegan lækningarmátt. – Þess má einnig geta, að þeir sem eru í góðu líkamlegu formi, hreyfa sig reglulega og borða skynsamlega, virðast ekki í eiga í jafnmiklum vandræðum með þynnku og þeir sem eru í slakara formi.
- Sundferð getur gert ótrúlegustu hluti fyrir timbraða og lúna einstaklinga. Ferð í gufu og kalda pottinn getur verið lykill að ,,þynnkulosun“
- Sofa. Á verstu morgnunum getur það stundum verið eina ráðið og þá er bara sofið út í eitt, frameftir öllum degi. Þeir sem upplifa það eftir hvert djamm ættu að taka drykkjuvenjur sínar til endurskoðunar.
- Sumir lifa í þeirri trú að afréttarinn sé málið og fá sér einn ölara þegar þeir vakna. Þó er alls ekki mælt með þeirri aðferð til að vinna bug á þynnku. Og þeir sem þrá afréttarann… þeir ættu kannski líka að endurskoða drykkjuvenjurnar og kynna sér starfsemi SÁÁ.
Á Áttavitanum má einnig finna
- lesefni um alkóhólisma og leiðir í átt að betra lífi ef neysla er komin í ógöngur.
- og grein um áhrif akóhóls á lifrina
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?