Afhverju og hvað er Dimissio?

Nú þegar líða fer að sumri er komið að því að fagna því að settum markmiðum hafi verið náð. Þeir sem stefna á útskrift halda upp á það með miklum látum undir formerkjum þess að vera að dimmiter. En hvað er dimmitering og hvað er gott að hafa í huga? Dimmiteringar geta verið af ýmsum toga og eru hefðir hvers og eins skóla hafðar í hávegum þegar það kemur að framkvæmd. Flestir eiga skólarnir þó sameiginlegt að leyfa nemendum að leika nokkuð lausum hala í tilefni dagsins. Hvort það sé vegna þess að þeir vita að þetta verði með þeirra síðustu afskiptum af nemendunum eða hvort þetta sé allt gert í nafni hefða og venja skal ekki sagt en víst er að þetta er hefð sem seint verður afmáð úr lífi hvers framhaldsskólanema. En hvað ber að hafa í huga þegar lagt er af stað í dimmiteringu, hverju þarf maður að passa sig á og hvernig er best að bera sig að á þessum viðburðaríka degi?

Góð ráð varðandi Dimmisjón

Besta ráðið er auðvitað að sleppa því að drekka áfengi! En við hjá Áttavitanum erum ekki fædd í gær og vitum hvernig megnið af útskriftar nemum háttar sér á þessum degi

Vertu vel sofin(n) og stemmd(ur)

Dimmiteringardagurinn getur verið langur og strangur, oftar en ekki hefst gleðin árla að degi og getur varað langt fram á nótt ef vel tekst til. Því er það líklega sniðugt að vera vel úthvíld(ur) og fersk(ur) þegar lagt er af stað í ævintýrið. Passaðu þig að borða vel yfir daginn, fáðu þér hollan og góðan morgunmat áður en lagt er af stað og borðaðu svo vel yfir daginn.

Gakktu hægt um gleðinnar dyr

Þar sem dimmiteringar hefjast snemma að morgni og standa venjulega langt fram á kvöld er nauðsynlegt að fara hægt af stað og leyfa spennunni ekki að ná tökum á sér. Fátt getur reynst leiðinlegra en að hafa eytt löngum tíma í undirbúning á deginum og að enda hann svo fyrir kvöldmat, sofnaður af ofneyslu áfengis Ef þú kýst að drekka áfengi í þinni dimmisjón þá  eru það sérleg meðmæli Áttavitans að drekka 1 vatnsglas milli áfengra drykkja til að jafna út áfengið með vatni til að halda rænu og fjörinu gangandi sem lengst.

Gerðu áætlanir fram í tímann

Að dimmitera getur krafist nokkurs undirbúnings, -ekki þarf einungis að redda sér búningi í samráði við önnur útskriftarefni, að fara í ríkið og gera ráðstafanir vegna vinnu eða annarra skyldna. Það getur kostað nokkuð að dimmitera með öllu tilheyrandi og því er ráð að ráðstafa fyrirfram fjármagni til herlegheitanna. Það er alltaf meiri stemning í því að vera með hópnum og að geta tekið þátt í því sem hefur verið skipulagt af nefndinni sem oftar en ekki sér um að skipuleggja daginn.

Að sníða sér stakk eftir vexti

Veður setur oftar en ekki líf okkar á íslandi í skorður og eru dimmiteringar engin undantekning frá þeirri reglu. Því getur það reynst góð regla að miða búning hvers skiptis við veðufar. Að manni verði ekki of heitt eða kalt getur skipt sköpum um það hvernig dagurinn fer og hversu vel maður skemmtir sér.

Gættu náungans

Sniðugt er að reyna að halda hópinn yfir daginn, það skapar stuðningsnet sem getur skipt sköpum þegar lagt er í slíka svaðilför. Hafið auga með hvort öðru og sjáið til þess að það skemmti sér allir vel og lengi.

Kynntu þér grein Áttavitans um mögulegar bjargir við þynnku

Öll vitum við að áfengi hefur ákveðn virkni og aukaverkanir. Flestum þykir virkni efnisins ákjósanlegri en aukverkanirnar en þær verða ekki flúnar eins og við þekkjum flest. Hinsvegar eru til mörg góð ráð til að forðast það að lenda í iðrum áfengisheljar og hefur Áttavitinn nokkur góð ráð fyrir þá sem vilja hafa vaðið fyrir neðan sig. Við bendum ykkur á grein okkar með nokkrum góðum ráðum við þynnku og skiljum ykkur eftir með einlægum óskum um góða dimmiteringu sé slíkt uppi á teningnum.

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar