Hvað er ástar- og kynlífsfíkn?
Ástar- og kynlífsfíkn er áráttu- og þráhyggjuhegðun sem lýsir sér þannig að einstaklingur lætur hugsanir og athafnir sem snúa að samböndum, ást eða kynlífi stjórna sér svo mikið að það fer að bitna á öðrum þáttum í lífinu. Fólk upplifir stjórnleysi í eigin lífi, á svipaðan hátt og alkóhólistar og aðrir fíklar gera.
Hver eru einkenni ástar- og kynlífsfíknar?
Í grófum dráttum er talið að fólk þjáist af ástar- og kynlífsfíkn þegar kynlíf eða sambönd fara að valda skaða í daglegu lífi; andlega, líkamlega eða félagslega.
Helstu einkenni eru:
- áráttukennd þörf fyrir kynlíf, klámnotkun, sýni- og gægjuþörf, eða annað sem tengist kynlífi;
- tilhneiging til að leita í mannskemmandi sambönd, af ótta við einmanaleika;
- félagsleg einangrun frá vinum, fjölskyldu og öðrum;
- þrálátir dagdraumar eða hugsanir um ástarsambönd eða kynlíf;
- óskýr mörk varðandi ást, væntumþykju, eymd, samúð, girnd og líkamlega aðlöðun;
- útrás fyrir erfiðar tilfinningar (streitu, sektarkennd, skömm, ótta, öfund o.m.fl.) fengin með ákveðinni kynlífshegðun;
- kynlíf og tilfinningaleg samskipti notuð til að stýra hegðun og tilfinningum annarra;
- hegðun eins og óhamið lauslæti, kaup á vændisþjónustu, stöðug skyndikynni, símakynlíf og notkun kláms á Netinu;
- kynferðislegar sjálfsmeiðingar eða misnotkun á öðrum;
- þráhyggjuhegðun og -hugsanir upphafðar og settar fram í dýrðarljóma og öðrum kennt um þegar hlutirnir fara ekki eins og væntingar stóðu til um.
Er til meðferð er við ástar- og kynlífsfíkn?
Meðferð við ástar- og kynlífsfíkn fer ýmist fram í gegnum sálfræðimeðferð eða 12 spora kerfi.
- Samtökin SLAA (Sex and Love Addicts Anonymous) vinna samkvæmt 12 spora kerfi í átt að bata og auknum lífsgæðum. Á heimasíðu SLAA á Íslandi má finna upplýsingar um ástar- og kynlífsfíkn og lesa sér nánar til um einkenni hennar. Þar er einnig að finna fundaskrá SLAA á Íslandi.
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?