Hvað er félagsfælni?

Félagsfælni lýsir sér í miklum ótta og kvíða varðandi félagslegar aðstæður. Segja má að félagsfælni sé tvískipt. Annars vegar birtist hún í kvíða varðandi samskipti við annað fólk og hinsvegar kemur upp kvíði gagnvart því að framkvæma hluti að öðrum viðstöddum. Margir þjást af kvíða fyrir hvoru tveggja. Félagsfælnir einstaklingar forðast slíkar aðstæður og upplifa kvíða bara við tilhugsunina um aðstæðurnar. Sé kvíðinn það mikill að hann hafi hamlandi áhrif á daglegt líf, má segja að um félagsfælni sé að ræða.

Hvað er það sem félagsfælnir einstaklingar óttast?

Félagsfælnir einstaklingar óttast neikvæða umfjöllun eða gagnrýni, annaðhvort í samskiptum eða þegar þeir þurfa að framkvæma ákveðnar athafnir fyrir framan aðra. Stundum óttast þeir bara eigin sjálfsgagnrýni, en ekki endilega að vera dæmdir af öðrum. Félagsfælnir einstaklingar óttast einnig kvíðaeinkennin sjálf, t.d. það að svitna, roðna, skjálfa eða frjósa eða vita ekki hvað þeir eiga að segja eða annað í þeim dúr. Þannig óttast þeir að verða fyrir gagnrýni og vera álitnir skrítnir eða jafnvel „heimskir“ og vera hafnað.

Er öll félagsfælni jafn alvarleg?

Nei, félagsfælni getur verið mismikil meðal fólks. Sumir þjást aðeins af vægri félagsfælni og láta sig hafa það taka þátt í ýmsum aðstæðum þrátt fyrir kvíðann og óþægindin, en aðrir geta verið mjög illa haldnir, jafnvel svo að þeir treysta sér ekki út úr húsi. Kvíðinn getur líka verið bundinn ólíkum aðstæðum meðal fólks.

Margir eru haldnir félagsfælni sem lýsir sér í ótta við aðstæður á borð við:

 • samkomur af ýmsu tagi; veislur, fundi og annað;
 • fjöldasamkomur og stórhátíðir, t.d. mannmergð í miðbænum á 17. júní;
 • það að fá til sín gesti í heimsókn, og þá kannski frekar ákveðna gesti heldur en aðra;
 • tala í síma, sér í lagi að hringja í stofnanir og fyrirtæki;
 • standa fyrir sínu, t.d. skila gallaðri vöru í verslun, andmæla þeim sem maður er ósammála, óska eftir launahækkun eða annað;
 • að eiga samskipti við yfirmenn, kennara eða annað yfirvald;
 • að eiga samskipti við ákveðnar stéttir, t.d. lögreglu, bankastarfsmenn eða lækna;
 • að finna athygli margra beinast að sér;
 • að tala fyrir framan fólk, halda fyrirlestra og ræður;
 • að koma fram, spila á hljóðfæri eða annað frammi fyrir áhorfendum;
 • að borða innan um annað fólk;
 • að nota almenningssalerni eða salerni heima hjá öðrum.

Hvernig tekst fólk á við félagsfælni?

Margir koma sér upp óæskilegum leiðum til að höndla aðstæður sem þeim þykja erfiðar, t.d. með því að forðast þær og koma fram með afsakanir fyrir að komast ekki á tiltekinn viðburð. Sumir misnota lyf og vímugjafa til að auðvelda sér aðstæðurnar. Slíkt getur oft undið upp á sig og orðið að enn stærra vandamáli og í raun viðheldur það fælninni. Ef maður er illa haldinn af félagsfælni, svo það bitnar á manns daglega lífi, er nauðsynlegt að leita leiða til að vinna bug á henni. Hugræn atferlismeðferð hefur gagnast mörgum í að sigrast á ýmiskonar fælni. Hægt er að fara í slíka meðferð hjá geðlæknum og sálfræðingum. Í sumum tilvikum er lyfjameðferð beitt ásamt viðtalsmeðferðinni og er þá notast við kvíða- og þunglyndislyf.

Á Áttavitanum má lesa sér til um sálfræðimeðferð.

Hverjar geta afleiðingar félagsfælni orðið?

Sé ekkert gert til að vinna bug á félagsfælni getur hún versnað til muna og leitt af sér ýmis önnur vandamál. Fælnin kemur niður á félagslegum samskiptum fólks og snertir því mörg svið lífsins. Einnig geta félagsfælnir einstaklingar þróað með sér alkóhólisma, aðrar kvíðaraskanir og jafnvel alvarlegri geðsjúkdóma. Félagsfælnin getur gert fólk óstarfhæft  og gert það að öryrkjum til frambúðar. Margir ná ekki að stofna fjölskyldu eða viðhalda tengslum við vini og kunningja og leiðast þar af leiðandi út í mikla félagslega einangrun og þunglyndi. Félagsfælni getur komist á svo alvarlegt stig að fólk sviptir sig lífi.

Hvað á fólk að gera ef það þjáist af félagsfælni?

Ef vandamálið er enn á vægu stigi er langbest að æfa sig í þeim aðstæðum sem fólk kvíðir mest fyrir. Bara láta sig hafa það; tala við yfirmanninn, hringja símtalið, halda ræðuna, mæta í veisluna, hvað sem það er. Gera hlutinn eins oft og maður hefur tækifæri til. Með nægri æfingu má oft vinna bug á óttanum og vandamálið er leyst.

Ef fælnin er hinsvegar orðin alvarlegri er gott að leita sér meðferðar, hjá t.d. sálfræðingi eða geðlækni. Sé snemma tekið í taumana má oft sigrast á vandanum með einfaldri samtalsmeðferð. Því miður draga margir það að leita sér aðstoðar þar til vandamálið er orðið frekar alvarlegt, þar sem þeir skammast sín gjarnan fyrir ástand sitt. Margir draga líka úr vandamálinu, halda að þeir séu bara feimnir, eða líta jafnvel á sig sem aumingja. Það sanna er þó að félagsfælni er frekar algeng og enginn þarf að skammast sín fyrir að vera félagsfælinn. Félagsfælni er líka sjúkdómur sem vinna má bug á og þar með auka lífsgæði sín til muna.

Á doktor.is má lesa meira um félagsfælni.

 

 • Var efnið hjálplegt?
 •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar