Margir ákveða að flytja á milli bæjarfélaga eða landa. Ástæðurnar geta verið margar; oft er það vegna náms sem fólk ákveður að sækja, en fólk flytur einnig vegna vinnu eða bara til að komast í nýtt umhverfi og til að upplifa eitthvað nýtt. Fyrir marga er þetta skemmtilegt og spennandi en fyrir aðra getur það verið afskaplega erfitt. Fyrstu vikurnar geta oft verið sérstaklega erfiðar. Hér eru nokkur ráð sem þú getur nýtt þér ef þú upplifir heimþrá.

Ég fæ mikla heimþrá, hvað á ég að gera?

Það er mikilvægt að muna að það er fullkomlega eðlilegt að finna fyrir heimþrá; það gerir mann ekki að aumingja. Margir eiga erfitt með að flytja burt frá öryggisnetinu sínu, en það er ýmislegt sem hægt er að gera til þess að gera það auðveldara.

Að tala við einhvern

Ef þú hefur ekki eignast vini ennþá geturðu leitað til kennara, umsjónarmanns, hjúkrunarfræðings eða námsráðgjafa og spjallað við þetta fólk um hvernig þér líður. Ekki vera ein(n) í eymdinni.

Ákveddu hversu mikil samskipti við heimafólk þitt er gott fyrir þig

Vertu í sambandi við heimaslóðir þínar, en leggðu það samt á þig að eignast vini á nýja staðnum. Ákveddu hvort það sé betra fyrir þig að vera í miklu sambandi við heimili þitt eða hvort að lítið samband virki betur (að vera í miklu sambandi getur ýtt undir vanlíðan og heimþrá hjá sumum). Ef að þú ert í aðstöðu til þess að fara heim um helgar skaltu íhuga vel hvort það sé það rétta í stöðunni. Sumum finnst það hjálpa til við að aðlagast breyttum aðstæðum en aðrir geta átt erfitt með að vera sífellt að flakka á milli.

Gakktu í félög eða klúbba

Í flestum borgum og bæjum eru fjöldinn allur af félögum, klúbbum eða tómstundum sem eru góður vettvangur til þess að eignast vini. Ef þú ert í skóla til dæmis er yfirleitt hellingur í gangi í félagslífinu, oft eru deildir í háskólunum til dæmis með sér nemendafélög sem sjá um uppákomur og annað slíkt. Svo getur þú líka gengið í skátana, í áhugaleikfélag, farið á námskeið eða fundið hagsmunasamtök sem berjast fyrir einhverju sem þú brennur fyrir. Leitaðu upplýsinga um það og finndu eitthvað sem þér líst vel á. Það getur verið erfitt að fara á fyrsta hittinginn eða uppákomuna, en um leið og það kemst upp í vana mun það slá á heimþrána. Einsettu þér að eignast að minnsta kosti einn til tvo vini á þessum vettvangi.

Jafnvægi á vinnu/skemmtun

Þú mátt ekki sökkva þér algerlega í vinnu, en ef þú gefur þér ekki nægan tíma í vinnu geturðu fljótlega lent eftir á – sem mun bara ýta undir stressið.

Komdu á rútínu eins fljótt og þú getur

Því meira sem þú hefur fyrir stafni á daginn, því minni tími er fyrir heimþrá og leiða.

Gefðu þér tíma til að venjast

Þú þarft ekki að ná öllu eða venjast öllu í einu. Enn síður þarftu að taka ákvörðun í skyndi um hvort þú ákveður að dvelja lengur eða fara aftur heim.

Hvað ef heimþráin skánar ekkert?

Ef heimþráin skánar ekki neitt eftir að einhver tími hefur liðið á nýja staðnum, skaltu spyrja sjálfan þig hvort það sem þú ert að gera þarna sé það rétta fyrir þig eða hvort að þetta sé rétti tíminn.

Þú getur alltaf breytt um stefnu eða frestað því sem þú ert að gera um til dæmis eitt ár – það gerir þig ekki misheppnaða(n). Ef þú ert í skóla talaðu þá við námsráðgjafa eða leiðbeinanda eða farðu í áhugasviðspróf áður en þú tekur stórar ákvarðanir.

Ef að heimþráin er byrjuð að taka yfir líf þitt og hafa áhrif á frammistöðu þína á ýmsum sviðum, til dæmis í skóla eða hafa áhrif á félagslífið er mikilvægt að leita sér aðstoðar. Gott gæti verið  að tala við lækni eða hjúkrunafræðing .

Heimildir

Grein þýdd og staðfærð af The Mix

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar