Geðhvarfasýki (Bipolar disorder eða manic-depressive disorder) er tiltölulega algengur geðsjúkdómur sem lýsir sér þannig að sjúklingurinn upplifir djúpt þunglyndi og oflæti eða maníu til skiptis. Allir finna fyrir geðsveiflum á ævinni, og það er fullkomlega eðlilegt að líða stundum mjög vel og stundum mjög illa. Geðhvarfasýki er það þegar þessar geðsveiflur verða svo miklar að sjúklingurinn hefur enga stjórn á þeim og þær fara að hafa veruleg neikvæð áhrif á líf hans. Sjúkdómurinn er ekki algengari hjá öðru kyninu en hinu, en algengara er að ungt fólk greinist með hann en eldra fólk.
Hver eru einkenni geðhvarfasýki?
Fólk sem haldið er geðhvarfasýki gengur í gegnum maníur annars vegar, og þunglyndi hins vegar. Maníurnar og þunglyndisköstin eru misalvarleg milli einstaklinga, og jafnvel mismikil hjá sama einstaklingi.
MANÍA (OFLÆTI):
Í maníu er heilinn á fullri ferð, líkt og hann væri á örvandi fíkniefnum. Manían varir yfirleitt í meira en viku í senn og getur jafnvel varið í mánuði ef ekkert er að gert. Helstu einkenni hennar eru eftirfarandi:
- Alsæla
- Kvíði
- Sjúklingur verður uppstökkur og smámunasamur
- Svefnleysi
- Fjörugt hugmyndaflug og sköpunargleði
- Hömluleysi, dómgreindarleysi og skyndiákvarðanir
- Framkvæmdagleði, nær óþrjótandi orka og ofvirkni
- Sjúklingur talar tæpitungulaust og virðist ekki hlusta á annað fólk
- Athyglisbrestur og einbeitingarleysi
- Hraðar og stjórnlausar hugsanir
- Ábyrgðarleysi
- Aukin kynhvöt
- Árásargirni eða ógnandi hegðun
- Mikilmennskubrjálæði og aukið sjálfstraust. Sjúklingi líður eins og hann eigi heiminn.
- Ranghugmyndir (t.d. um samsæri eða að náttúrulögmál gildi ekki um hann)
Engir tveir uplifa nákvæmlega sömu einkenni í maníu og nær enginn hefur öll þessi einkenni, heldur yfirleitt nokkur í senn. Sumum hættir til að leiðast út í óábyrga lyfja- eða áfengisneyslu í maníunni sökum hömluleysisins. Aðrir reyna að koma háleitum og oft óraunhæfum áætlunum í framkvæmd, og geta þannig valdið sjálfum sér og öðrum fjárhagslegu tjóni eða annars konar skaða. Sumum líður illa í maníunni, eru kvíðnir, reiðir og hræddir um að gera eitthvað af sér, en fleiri lýsa maníunni sem bestu tilfinningu í veröldinni, full gleði og nautna, og vilja alls ekki hætta að vera manískir. Ofvirknin og svefnleysið gerir það að verkum að sjúklingurinn getur örmagnast, sem getur verið lífshættulegt.
ÞUNGLYNDI:
Eftir maníu hrapar geðhvarfasjúklingur í þunglyndiskast, sem svipar mjög mikið til dæmigerðs þunglyndis. Hann verður leiður, aðgerðalaus, sefur mikið, dregur sig í hlé, hefur nær ekkert sjálfstraust, er kvíðinn og áhugalaus, og líður eins og hann sé tómur að innan. Einkennin eru að sjálfsögðu mismunandi milli sjúklinga. Oft fylgja sjálfsvígshugsanir þunglyndinu. Meira má lesa um
þunglyndi og einkenni þess á Áttavitanum.
Hvað veldur geðhvarfasýki?
Ekki er á hreinu hvað veldur geðhvarfasýki, en vitað er að sjúkdómurinn er mjög líklega arfgengur. Hann er mun algengari í vissum ættum en öðrum. Orsök sjúkdómsins er þó líklega mjög flókið samspil erfða og umhverfis. Oflætis- og þunglyndisköst byrja oft þegar einstaklingurinn verður fyrir áfalli eða streitu. Algengast er að greinast með sjúkdóminn á unglingsárum eða snemma á fullorðinsárum.
Hvað er til ráða gegn geðhvarfasýki?
Ef þig grunar að þú eða einhver þér nákominn sé haldinn geðhvarfasýki skaltu sækja hjálp geðlæknis. Fyrsta stopp er heilsugæslustöðin þín eða geðdeild landspítalans.Það er engin skömm í því að leita sér hjálpar.
Því miður er ekki til endanleg lækning við geðhvarfasýki, en hægt er að halda einkennunum í skefjum með áhrifaríkum hætti. Til þess er yfirleitt notuð blönduð meðferð, þ.e. bæði lyfjameðferð og hugræn meðferð eða fjölskyldumeðferð. Algengasta lyfið gegn oflæti er liþíum og þurfa sjúklingarnir oftast að nota það alla ævi. Sumir geðhvarfasjúklingar eru jákvæðir í garð lyfjameðferðar þegar þeir eru í jafnvægi, en harðneita að taka lyfin þegar þeir eru í maníu, vegna þess að þeir vilja alls ekki hætta að finna fyrir þeirri ótrúlega alsælu sem stundum fylgir maníunni.
Mikilvægt er að geðhvarfasjúklingur njóti stuðnings fjölskyldu sinnar og búi við reglubundið umhverfi og eigi skilningsríka aðstandendur sem styðja hann. Með reglulegu mataræði, reglulegum svefni, heilbrigðum tilfinninga- og félagstengslum, ábyrgri hegðun og með því að draga úr eða hætta áfengisneyslu geta geðhvarfasjúklingar haldið einkennunum niðri með mjög miklum arangri og tekist að líða vel, lifa eðlilegu og heilbrigðu lífi.
- Var efnið hjálplegt?
- Já Nei
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?