Hvaða breytingar eiga sér stað hjá móðurinni á öðrum hluta meðgöngunnar?

Á þessu tímabili stækkar konan hvað mest: Bumban rís og verður sýnileg, brjóstin halda áfram að stækka og eins stækkar legið í takt við vöxt barnsins. Á öðrum þriðjungi meðgöngunnar er þyngdaraukning konunnar hvað mest og þetta kallar á breytingar á klæðaburði. Sumar konur verða varar við samdrætti. Þetta eru einskonar æfingar sem líkaminn gerir fyrir komandi barnsburð. Húðin á það til að dökkna og geirvörtur verða dökkbrúnar. Á þessum þriðjungi kemur oft fram slit í húð, s.s. á maga, brjóstum, baki og rassi. Á seinni hlutanum verða konur varar við bakverki og verki í fótum og fótleggjum, mæði þegar þær ganga og finna fyrir auknu álagi á líkamann. Jafnan líður þó móðurinni vel, ógleði ætti að vera horfin og meiri orka til staðar.

Hvaða breytingar eiga sér stað hjá barninu?

Barnið hefur nú tekið á sig greinilega mannsmynd og öll líffærin halda áfram að stækka og þroskast. Andlitsdrættir skýrast og í lok annars hluta opnar barnið augun. Hreyfingar þess verða kröftugri og móðirin fer að verða vör við þær. Eins fer að móta fyrir kynfærum, barnið greinir loks hljóð og á því myndast líkamshlutir eins og neglur og hár.

    Á síðunni Ljósmóðir.is má fylgjast með þroska barnsins viku fyrir viku, sem og breytingum hjá móðurinni.

Hvað þarf að hafa í huga á öðrum hluta meðgöngunnar?

Á öðrum þriðjungi meðgöngunnar líður báðum foreldrunum yfirleitt vel. Móðirin er farin að hressast og óléttan verður raunverulegri fyrir föðurnum. Þetta er kjörinn tími til þess að slappa af og eyða tíma saman. Ýmsu þarf þá að huga að. Hér að neðan má finna gátlista yfir þau mál sem þarf að ganga frá á öðrum hluta meðgöngu.

Á 4. mánuði . . .

  • Er orðið óhætt að segja vinum og fjölskyldu fréttirnar.
  • Óléttubumban ætti að vera orðin vel sýnileg.
  • Ef til vill er orðið tímabært að tilkynna vinnuveitenda um óléttuna.
  • Önnur heimsókn til ljósmóður fer fram, nánar tiltekið á 16. viku.
  • Ráðlegt gæti verið að byrja að endurskipuleggja fjármálin með barnið í huga.
  • Á 4. mánuði er orðið tímabært að verða sér úti um meðgönguföt.
  • Konur í rhenus-neikvæðum blóðflokki ættu að segja ljósmæðrum sínum frá því.
  • Tilvalið er að skrá sig á foreldra- og fæðinganámskeið. Heilsugæslan býður t.a.m. upp á slík námskeið.

Á 5. mánuði . . .

  • Er meðgangan hálfnuð!
  • Foreldrar geta fengið að vita kynið, kjósi þeir það. Það er hægt í 20 vikna sónar.
  • Foreldrar ættu að fara að huga að rétti sínum til fæðingarorlofs.
  • Móðirin mun líklega finna barnið hreyfa sig í fyrsta sinn. Það gæti þó verið að faðirinn þurfi að bíða eitthvað lengur.

Á 6. mánuði . . .

  • Er sniðugt að fara að huga að nafngjöfinni. Vilja foreldrarnir skíra eða nefna?
  • Gott er að byrja að útvega sér það sem vantar á heimilið áður en barnið kemur í heiminn, s.s. húsgögn, föt og annan búnað. Á Áttavitanum má finna gátlista yfir dót sem þarf inn á heimili hjá nýfæddu barni.
  • Þriðja heimsókn til ljósmóður fer fram á 25. viku.
  • Kynlíf gæti verið farið að verða erfiðara sökum stærðar bumbunnar. Á vefsíðunni Ljósmóðir.is má lesa sér til um kynlíf á meðgöngu.
  • Konan gæti verið farin að finna fyrir ýmsum meðgöngukvillum, s.s. bakverkjum, sinadráttum, harðlífi og öðru.

 

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar