Hvað eru ofskynjunarlyf?

Ofskynjunarlyf er samheiti yfir efni sem brengla upplifun fólks af heiminum og sjálfum sér. Hægt er að skipta lyfjunum í tvo flokka; náttúruleg efni og gerviefni. Algengustu ofskynjunarlyfin á Íslandi eru sveppir og sýra, eða LSD. Einnig telst e-pillan til ofskynjunarlyfja – en um hana má finna grein hér á Áttavitanum.

Hvaða áhrif hafa ofskynjunarlyf?

Eins og nafnið bendir til valda efnin ofskynjunum. Áhrifin koma fljótt fram og eru oft mjög mikil. Sem dæmi um brenglanir mætti nefna:

  • Umhverfið breytir algerlega um svip: Litir og lögun breytist, það sem er lítið virðist stórt og öfugt.
  • Neytandanum getur fundist hann yfirgefa eigin líkama og virða hann fyrir sér utan frá.
  • Neytandinn á erfitt með að meðhöndla viðfangsefni á skipulagðan hátt og talar í samhengislausum setningum.
  • Upplifanir og hugmyndir geta jaðrað við hreinar opinberanir.
  • Tilfinningar og upplifanir geta verið mjög ýktar; sveiflast frá kvíða, angist og svartasta þunglyndi yfir í gríðarlegan æsing, viðkvæmni og sælu.
  • Skynbrenglun getur líka átt sér stað, eins og ofsóknaræði og sú tilfinning að finnast sér stafa hætta af umhverfi sínu.
  • Neytandinn gerir sér stundum ekki grein fyrir því að skynjanirnar séu rangar og af völdum efnanna og þá getur hann orðið óttasleginn og jafnvel fyllst ofsahræðslu og ofsóknarkennd.

Hvað hefur áhrif á upplifun einstaklingsins af ofskynjunarlyfinu?

Ýmislegt getur haft áhrif á hvaða einkenni koma fram, t.d. persónugerð einstaklingsins, væntingar til neyslunnar, stærð skammtarins ásamt andrúmslofti og umhverfi. Einnig er misjafnt hversu viðkvæmt fólk er fyrir því að þróa með sér geðræna kvilla og í sumum tilvikum kemur slíkt ekki í ljós fyrr en við notkun hugbreytandi efna.

Hvernig eru ofskynjunarlyf tekin inn?

Yfirleitt eru ofskynjunarlyf étin. Úr sveppum er stundum soðið te. Ákveðin lyf eru þó reykt, t.a.m. englaryk.

Er hægt að taka inn of stóran skammt af ofskynjunarlyfjum?

Afar fágætt er að fólk látist úr of stórum skammti af ofskynjunarefnum. Dauðaskammtar af LSD þekkjast ekki. Hinsvegar má rekja dauða fólks til neyslu efnanna, s.s. í gegnum sjálfsmorð, morð og slys.

Eru ofskynjunarlyf hættuleg?

Já, ofskynjunarlyf eru vissulega hættuleg. Þó svo að efnin valdi sjaldnast beinum líkamlegum skaða geta þau valdið miklum andlegum áhrifum. Hætturnar eru fyrst og fremst í því fólgnar að fólk verði stjórnlaust eða geðveikt í vímunni. Mörg dæmi eru um að einstaklingar á LSD hafi veitt sjálfum sér eða öðrum skaða, ýmist vegna tímabundinnar geðbilunar eða slysa. Einnig geta lyfin kallað fram undirliggjandi geðsjúkdóma, s.s. þunglyndi eða geðklofa, eða magnað þá upp.

Eru ofskynjunarlyf ávanabindandi?

Ekki er talið að ofskynjunarefni séu beint ávanabindandi því afar sjaldgæft er að fólk noti þessi efni eingöngu og í langan tíma. Yfirleitt neytir fólk ofskynjunarlyfja í tilraunskyni eða gerir það tímabundið og færir sig svo yfir í önnur efni.

 

Mynd með grein frá Eggrole.

 

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar